„Aðrar breytingar hjá okkur eru hin hefðbundna rótering á hlutverkaskipan. Birgitta Jónsdóttir tekur við þingflokksformennsku af Helga Hrafni Gunnarssyni en Helgi Hrafn verður formaður flokksins. Formennska í Pírötum er þó eingöngu formlegs eðlis vegna þinglegra prótócolla og hefur ekki í för með sér nein sérstök valdsvið eða ábyrgð. Þess vegna hefur formaður flokksins ávallt hafnað sérstöku launaálagi frá Alþingi fyrir formennskuna og mun Helgi Hrafn einnig hafna álaginu nú.“
Þetta segir í tilkynningu til fjölmiðla frá Pírötum í dag, þar sem farið er yfir breytta skipan á þingflokki flokksins. Jón Þór Ólafsson, 10. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, hættir á þingi og Ásta Guðrún Helgadóttir sest á þing í hans stað.
„Ásta er með BA próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands en hefur einnig verið við nám í Varsjá og Tehran. Þá hefur hún einnig verið í starfsnámi í Brussel og starfaði sem aðstoðarmaður Evrópuþingmannsins Amelíu Andersdóttur, sem kjörin var á Evrópuþingið fyrir sænska Pírata. Ásta hefur ferðast mikið um heiminn á undanförnum árum, meðal annars til Póllands, Íran, Georgíu, Þýskalands, Armeníu og víðar.
Okkur er sönn ánægja að taka á móti Ástu í þingflokk Pírata um leið og við kveðjum Jón Þór með söknuði,“ segja Píratar í tilkynningu en flokkurinn mælist sá vinsælasti í skoðanakönnunum.
Þrjú mál eru tiltekin sem forgangsmál flokksins á komandi þingi. Málin þrjú voru einnig flutt á síðasta þingi og eru listuð í tilkynningunni með þessum hætti:
„Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu OPCAT, sem mælir fyrir um eftirlit með stofnunum sem vista frelsissvipta einstaklinga. Fyrsti flutningsmaður er Birgitta Jónsdóttir.
Þingsályktunartillaga um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Fyrsti flutningsmaður er Helgi Hrafn Gunnarsson.
Frumvarp um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra. Fyrsti flutningsmaður er Ásta Guðrún Helgadóttir.“