Hofgarðar, félag í eigu Helga Magnússonar, varaformanns stjórnar N1 og varaformanns stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, keypti fyrr í dag hlut í N1 fyrir 109 milljónir króna samkvæmt tilkynningu til Kauphallar Íslands.
Hofgarðar keyptu þrjár milljónir hluta í félaginu á genginu 36,3 krónur, að því er fram kemur í tilkynningunni. Eftir viðskiptin á félagið 9,7 milljónir hluta sem eru metnir eru 353 milljónir króna þegar viðskiptin áttu sér stað.
Alls hafa hlutabréf í N1 hækkað um 4,2 prósent í dag en heildarvelta viðskiptanna hefur numið 420 milljónum króna.
Stærsti hluthafinn í N1 er Lífeyrissjóður verzlunarmanna, með 14,2 prósent hlut, en eins og áður sagði situr Helgi þar í stjórn félagsins.
Í gær tilkynnti N1 um afkomu sína á fyrsta ársfjórðungi en hagnaður nam 134,6 milljónum króna á ársfjórðungnum samanborið við 77 milljónir árið áður.