Á nýliðnum vetri gaf Veðurstofa Íslands út 189 viðvaranir vegna veðurs. Er þá miðað við tímabilið frá og með fyrsta vetrardegi og til hins fyrsta sumardags samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Á sama tíma í fyrra voru viðvaranirnar mun fleiri eða 354. Þá voru því gefnar út tæplega 50 prósent fleiri viðvaranir en á þeim vetri sem nú er nýliðinn. Ef horft er til vetrarins 2018-2019 voru viðvaranirnar 211 talsins.
Í gögnum sem Veðurstofan tók saman fyrir Kjarnann kemur fram að flestar viðvaranir í vetur voru gefnar út á spásvæðinu Austfjörðum eða 23. Þar urðu gríðarlegar rigningar í desember sem ollu miklum skriðuföllum á Seyðisfirði. Í fyrra voru þær 25, lítið eitt fleiri en þegar horft er til annarra landsvæða kemur meiri staðbundinn munur í ljós. Þannig voru átján viðvaranir vegna veðurs gefna út á höfuðborgarsvæðinu veturinn 2019-2020 en aðeins sex í ár.
Enn meiri munur sést á t.d. Suðurlandi þar sem 38 viðvaranir voru gefnar út í fyrra en fimmtán í ár og á Norðurlandi vestra voru þær 38 í fyrra en 22 í ár. Vestfirðirnir skera sig einnig úr en þar var gefin út 41 viðvörun í fyrra en 22 í ár. Undangengna þrjá vetur hafa flestar veðurviðvaranir einmitt verið gefnar út þar eða samtals 83. Suðausturland fylgir þar fast á eftir með 81 viðvörun.
Færir fjallvegir
[Veturinn sem við höfum nýverið kvatt var að mörgu leyti nokkuð sérstæður. Fyrst ber að nefna hina sögulegu úrkomu á Seyðisfirði sem kom á „rakafæribandi“ með austanáttinni – eins og Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og ritstjóri Bliku.is lýsti því í samtali við Kjarnann nýverið.
Þá voru fyrstu mánuðir ársins nær snjólausir í Reykjavík og víðar á suðvestanverðu landinu var snjólétt. Hellisheiði var til dæmis aldrei ófær í fyrravetur en henni var lokað tólf sinnum í sex klukkutíma eða lengur í senn í fyrravetur. Sömu sögu er að segja af Mosfellsheiðinni. Vegagerðin þurfti aldrei að loka henni en hins vegar sextán sinnum í fyrra – illviðraveturinn 2019-2020. Holtavörðuheiðinni var lokað sjö sinnum á nýliðnum vetri en sautján sinnum í fyrra og Steingrímsfjarðarheiði var lokað fimmtán sinnum en í fyrravetur 35 sinnum.
En þegar austar dregur kemur upp önnur mynd. Vegagerðin lokaði til að mynda Fjarðarheiði tuttugu sinnum í vetur eða lítið eitt sjaldnar en í fyrravetur þegar hún var ófær 26 sinnum.
Svalt vor eftir mildan vetur
Kyrrlátir vordagar hafa einkennt veðrið suðvestanlands síðustu daga en engu að síður hefur verið kalt í veðri. Kalt loft liggur enda yfir landinu sem valdið hefur næturfrosti, jafnvel um allt land. Horfurnar eru í svipuðum dúr: á miðvikudag, fimmtudag og föstudag spáir Veðurstofan áfram bjartviðri á Suður- og Vesturlandi en stöku éljum við suðurströndina. Hiti verður frá frostmarki og upp í átta stig þegar litið er til alls landsins.