Þingmenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata tjáðu sig með afgerandi hætti á samfélagsmiðlum eftir að fréttir bárust af því að lögreglan á Norðurlandi hefði boðað blaðamenn í yfirheyrslu fyrir meint brot á lögum um friðhelgi einkalífsins.
Kjarninn greindi frá því í gær að Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans og Arnar Þór Ingólfsson blaðamaður miðilsins hefðu fengið stöðu sakbornings við rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi, sem er staðsett á Akureyri, á meintu broti á friðhelgi einkalífsins. Þeim var greint frá þessu símleiðis í gær og þeir boðaðir í yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglumanni embættisins sem mun gera sér ferð til Reykjavíkur til að framkvæma hana.
Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Stundinni er sömuleiðis með stöðu sakbornings í málinu og hefur einnig verið boðaður í yfirheyrslu. Þá var greint frá því á vef RÚV í gærkvöldi að Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks hefði einnig verið boðuð í yfirheyrslu.
Skautað á hálum ís
Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi fjölmiðlamaður tjáði sig um málið í gær í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni. „Við búum sem sagt í landi þar sem blaðamenn fá réttarstöðu sakbornings í yfirheyrslum fyrir að skrifa fréttir. Hér skautar lögreglustjórinn fyrir norðan á afar þunnum ís, vægast sagt.
Það er fullkomlega heimilt að skrifa fréttir upp úr svona gögnum, ef upplýsingarnar varða almannahag. Það er nánast daglegt brauð. Man ekki betur en að Samherji hafi beðist velvirðingar vegna hegðunar þessarar skæruliðadeildar í framhaldi af fréttaskrifunum sem eru undir í þessu máli. Ef Aðalsteinn Kjartansson og Þórður Snær Júlíusson þurfa að svara til saka en ekki Þorbjörn Þórðarson og Jón Óttar spæjari, þá er kerfið okkar meingallað,“ skrifaði hann.
Við búum sem sagt i landi þar sem blaðamenn fá réttarstöðu sakbornings í yfirheyrslum fyrir að skrifa fréttir. Hér...
Posted by Sigmar Gudmundsson on Monday, February 14, 2022
Formaður BÍ: Óskiljanleg og óverjandi ákvörðun
Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar gerði málið einnig að umtalsefni á Facebook-síðu sinni í gær. „Svo það eru þá fjölmiðlarnir sem voru vondu kallarnir. Og þessir almannahagsmunir sem eru alltaf að reyna að þykjast vera eitthvað merkilegt. Vesalings skæruliðarnir. Og auðvitað aumingja Samherji.“
Hún deildi með færslunni frétt RÚV þar sem fjallað er um yfirlýsingu formanns Blaðamannafélags Íslands, Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, vegna málsins. Sigríður Dögg sagði í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær að ákvörðun lögreglunnar á Norðurlandi um að kalla til blaðamenn til yfirheyrslu vegna umfjöllunar þeirra um svokallaða skæruliðadeild Samherja, væri óskiljanleg og óverjandi.
„Því er óskiljanlegt og nær óverjandi að lögreglan kalli blaðamenn til yfirheyrslu eingöngu til þess að fá þær upplýsingar frá þeim að þeir muni ekki gefa upp heimildarmenn sína. Það má beinlínis túlka sem óeðlileg afskipti lögreglu af starfi blaðamanna sem tefur þá að auki frá öðrum störfum á meðan og hefur þar af leiðandi hamlandi áhrif á störf þeirra. Evrópuráðið hefur bent á að þessu til viðbótar geti afskipti lögreglu sem þessi af blaðamönnum dregið úr vilja almennings til þess að láta blaðamönnum í té upplýsingar, sem hafi einnig áhrif á rétta almennings til upplýsinga,“ sagði Sigríður Dögg.
Árás á fjölmiðla og „algjörlega ólíðandi“
Þingmaður Samfylkingarinnar lagði einnig orð í belg. „Þetta er árás á fjölmiðla og algjörlega ólíðandi.“ Þetta sagði Helga Vala Helgadóttir á Facebook-síðu sinni í morgun.
„Minni á að við erum í 16. sæti heimslista yfir frelsi fjölmiðla á sama tíma og önnur norræn ríki raða sér í efstu sætin. Að starfa í fjölmiðlum er ekki vel launað starf hér á landi og krefst þess að fólk, amk það sem fæst við fréttir og fréttatengt efni, sé alltaf á vakt. Þetta verður að lífsstíl og vaktinni lýkur aldrei. Þegar ofsóknir auðfólks bætast svo við verður þetta starf nánast óverjandi amk fyrir fjölskyldufólk. Við verðum að opna augun fyrir þessari stöðu því án sjálfstæðra fjölmiðla veikist lýðræðið og þar með réttarríkið.“
Þetta er árás á fjölmiðla og algjörlega ólíðandi. Minni á að við erum í 16. sæti heimslista yfir frelsi fjölmiðla á sama...
Posted by Helga Vala Helgadóttir on Monday, February 14, 2022
Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrum blaðamaður sagði á Facebook í gær að fréttaflutningur af skæruliðadeild Samherja hefði átt brýnt erindi við almenning.
„Þessi afskipti lögreglu af störfum fjölmiðlafólks vekja með manni ugg svo ekki sé fastar að orði kveðið og kalla á skýringar.“
Kallar á frekari skýringar
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar sagði í stöðuuppfærslu á Facebook í dag að sjálfstæðir fjölmiðlar væru grundvallaratriði í heilbrigðu lýðræðissamfélagi.
„Í siðuðum ríkjum er blaðamönnum tryggðar aðstæður sem ætlað er að tryggja að þeir geti sinnt störfum sínum í þágu almannahagsmuna. Alþjóðastofnanir leggja ríka áherslu á að gætt sé fyllstu varkárni þegar blaðamenn eru rannsakaðir og íslensk lög tryggja þeim rétt til að vernda heimildarmenn sína.“
Hann sagði jafnframt að það væri fáheyrt ef tilgangurinn með yfirheyrslum lögreglu væri að blaðamenn gæfu upp heimildarmenn sína og vert væri að minna á að samkvæmt dómum Mannréttindadómstólsins hefðu blaðamenn bæði rétt á og bæru í raun skylda til þess að halda trúnað við heimildarmenn sína.
„Þessi rannsókn kemur mér því mjög spánskt fyrir sjónir og kallar á frekari skýringar,“ skrifaði hann.
Segir að þetta standist ekki lög
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata sagði í athugasemd við færslu ritstjóra Kjarnans þar sem hann deilir frétt af málinu að þetta væri fáránlegt og stæðist ekki lög.
Benti hún á að nefndarálit allsherjar- og menntamálanefndar gerði það mjög skýrt að ákvæðið sem lögreglustjórinn vísar í undanskilur vinnu blaðamanna.
„Ég var framsögumaður á nefndaráliti allrar allsherjar- og menntamálanefndar og lagði áherslu á að tryggja að vinna blaðamanna yrði undanskilin þessu ákvæði við vinnu mína í nefndinni og nefndin var öll á bak við þá tillögu.“
„Hvers vegna lögreglan lætur hafa sig út í þetta er stórfurðulegt“
Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata deildi frétt Stundarinnar um málið í gær og spurði hvað í ósköpunum væri eiginlega í gangi.
„Dettur einhverjum hérna í hug að það sé tilviljun að það er lögreglan á Akureyri sem fer að skipta sér af þessu?
Ég á ekki orð. Ef þessu verður einhvern vegin troðið í einhvers konar saksókn og dómsmál þá eru lög um fjölmiðla og hlutverk þeirra algerlega ónýtt. Hitt finnst mér líklegra að það sé hreinlega um ofsóknir að ræða – hvers vegna lögreglan lætur hafa sig út í þetta er stórfurðulegt,“ skrifaði hann.
Hvað í ósköpunum er eiginlega í gangi hérna? Dettur einhverjum hérna í hug að það sé tilviljun að það er lögreglan á...
Posted by Björn Leví Gunnarsson on Monday, February 14, 2022
RÚV leitaði til Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra varðandi viðbrögð og segir hún í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu RÚV í dag að hún tjái sig ekki um einstaka mál sem eru til rannsóknar. Segir hún að brýnt sé að fjölmiðlar geti sinnt sínu mikilvæga lýðræðishlutverki og stuðlað þannig að málefnalegri umræðu í þjóðfélaginu.