Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag íslenska ríkið af kröfum Bandalags háskólamanna, BHM, og er það niðurstaða héraðsdóms að ríkinu hafi verið heimilt að setja lög á verkfall félaga BHM í síðasta mánuði. Lög þess efnis voru samþykkt í júní, eftir um tíu vikna verkfallsaðgerðir ákveðinna félaga innan BHM og langar kjaraviðræður án niðurstöðu.
Dómur héraðsdóms var birtur klukkan tvö í dag en málið fékk flýtimeðferð fyrir dómstólum. „Var það niðurstaða dómsins að ekki væru komin fram nægjanlega veigamikil rök til að líta svo á að löggjafinn hafi með lagasetningunni gengið lengra í þá átt að skerða frelsi deiluaðila til að ná kjarasamningum en nauðsynlegt var til að ná fram yfirlýstum markmiðum sínum til að tryggja almannaheill,“ segir í niðurstöðukafla dóms héraðsdóms.
Kjaradeilu aðildarfélaga BHM var vísað til ríkissáttasemjara í lok mars síðastliðnum. Haldnir voru 24 fundir sem báru ekki árangur. Þann 13. júní síðastliðinn voru samþykkt lög á Alþingi sem bönnuðu verkföll Félags geislafræðinga, Félags lífeindafræðinga, Ljósmæðrafélagss Íslands, Félags íslenskra náttúrufræðinga, Stéttarfélags lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Stéttarfélags háskólamanna á matvæla- og næringasviði, Dýralækningafélags Íslands hjá Matvælastofnun og Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hjá Fjársýslu ríkisins. Þegar lög voru sett höfðu verkfallsaðgerðir staðið yfir í á þriðja mánuð. BHM taldi lagasetninguna fela í sér ólögmætt inngrip í starfsemi frjálsra, löglegra félagssamtaka og fór með málið fyrir dómstóla, þar sem niðurstaða fékkst í dag.