Embætti ríkissaksóknara hefur ákveðið að áfrýja sýknudóm sem fjórir meðlimir hljómsveitarinnar Sigur Rósar fengu í síðasta mánuði. Þetta staðfestir bassaleikari hljómsveitarinnar, Georg Hólm, í færslu á Facebook-síðu sinni fyrr í dag.
Allir hljómsveitarmeðlimirnir nema Kjartan Sveinsson voru ákærðir fyrir meiriháttar skattalagabrot með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum gjaldárin 2011 til og með 2014. Kjartan var sagður hafa staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum árin 2012 og 2014.
Þremur liðsmönnum sveitarinnar, Georg Hólm, Jóni Þór og Orra Pál Dýrasyni, var gefið að sök að hafa komist undan greiðslu tekjuskatts og fjármagnsskatts. Kjartan, sem hætti í Sigur Rós fyrir rúmum sjö árum, var ákærður fyrir að hafa komist hjá því að greiða tekjuskatt.
Saksóknari sagði að þeir hefðu sleppt því að telja fram rekstrartekjur félagsins á þessum árum sem námu rúmum 700 milljónum og þannig komið félaginu undan greiðslu tekjuskatts upp á 146 milljónir.
Máli héraðssaksóknara á hendur hljómsveitarmeðlimunum var vísað frá dómi í október árið 2019. Landsréttur úrskurðaði svo í fyrra að héraðsdómur myndi taka það aftur til efnislegrar meðferðar eftir að héraðssaksóknari hafði áfrýjað málinu.
Þeirri meðferð lauk þann 25. maí síðastliðinn þar sem allir meðlimir hljómsveitarinnar voru sýknaðir.