Nýtt íslenskt lyfjafyrirtæki, Herberia, hefur nú lokið frumfjármögnun sem mun gera því kleift að koma fyrstu lyfjunum á markað á næsta ári. Herberia hefur nú samið við fjárfestingafélagið Einvala fjárfesting ehf. um fyrstu fjármögnun félagsins. „Við kynntumst Herberia á vettvangi Startup Reykjavík og höfum unnið með fyrirtækinu í nokkra mánuði að samræmingu markmiða og uppsetningu fjárfestingar og fjáröflun,” segir Skúli Valberg talsmaður Einvala fjárfestingar, í tilkynningu vegna fjármögnunarinnar. „Margir samvirkandi þættir gengu upp í skoðun okkar á félaginu, m.a. að það geislar af fagmennsku, teymið hefur mikla þekkingu og reynslu í faginu og markaðstækifærið er spennandi og alþjóðlegt. Lyfjagreinin á Íslandi er ein þeirra þekkingargreina sem reynst hefur farsæl og reynsla og þekking hefur skapast í kringum þau fjölmörgu fyrirtæki sem sprottið hafa upp í gegnum árin og samstarf við háskólaumhverfið verið mikið.“
Ný stjórn og framkvæmdastjóri Herberia.
Fyrirtækið sérhæfir sig í þróun og markaðssetningu á skráðum jurtalyfjum við vægum algengum sjúkdómum. Jurtalyf eru viðurkennd lyf sem framleidd eru úr virkum náttúruefnum samkvæmt sömu gæðastöðlum og hefðbundin lyf. Stefnt er að skráningu og sölu lyfjanna á Evrópumarkaði en nýleg reglugerð Evrópusambandsins setur auknar kröfur um skráningu og gæðastaðla jurtalyfja. Reglugerðin hefur nú verið innleidd á Íslandi.
Herberia var stofnað í ársbyrjun 2013 af þremur lyfjafræðingum með víðtæka reynslu úr lyfjageiranum og nýlega bættist fjórði frumkvöðullinn í hópinn. Kolbrún Hrafnkelsdóttir lyfjafræðingur er forstjóri félagsins en meðstofnendur hennar eru Sesselja S. Ómarsdóttir prófessor í lyfja- og efnafræði náttúruefna og Nína Björk Ásbjörnsdóttir lyfjafræðingur. Karl Guðmundsson stýrir sölu- og markaðsmálum fyrirtækisins. Stjórn félagsins skipa þau Guðbjörg Edda Eggertsdóttir formaður, fyrrverandi forstjóri Actavis, Hjörleifur Pálsson og Skúli Valberg Ólafsson.
Sumarið 2013 var Herberia valið til þátttöku í Startup Reykjavík viðskiptahraðalinn, samstarfsverkefni Arion banka og Klak Innovit um stuðning við frumkvöðlafyrirtæki. Kjarninn fjallaði meðal annars um félagið í umfjöllun sinni um verkefni sem farið hafa í gegnum Startup Reykjavík viðskiptahraðalinn.
https://vimeo.com/97988066
„Markmið Arion banka með Startup Reykjavík er að styðja við efnilega frumkvöðla og hjálpa þeim að þróa og þroska sína viðskiptahugmynd með það að markmiði að laða að nýja fjárfesta. Það er því afar ánægjulegt að sjá að Herberia hefur nú tekist að afla fjármagns frá nýjum fjárfestum til frekari uppbyggingar síns rekstrar,“ segir Einar Gunnar Guðmundsson, forsvarsmaður frumkvöðlamála hjá Arion bank.
Félagið hefur einnig notið styrkja frá Landsbankanum, Atvinnumálum kvenna og Lyfjafræðingafélagi Íslands.
„Fáar greinar skalast betur en þær sem byggja á hugviti og því ætti að vera augljóst fyrir litla en vel menntaða þjóð að leggja höfuðáherslu á fjárfestingu í þekkingargreinum. Við munum ganga strax í að afla fyrirtækinu frekari fjármögnunar og bindum vonir við að nýir fagfjárfestasjóðir í nýsköpun komist á laggirnar hér á landi sem fyrst,“ segir Skúli Valberg í fréttatilkynningu.
Viðbót klukkan 17:38: Skúli Valberg Ólafsson segir í umfjöllun um þessa frétt, á Facebook að Herberia sé opið fyrir frekari fjármögnun, og ætli sér að ná í frekara fjármagn til vaxtar. Fyrirtækið hefur fengið 50 milljónir króna með breytanlegu skuldabréfi. Sælt veri fólkið. Svörin eru auðvitað til staðar ef spurt er; hér er um frumfjárfestingu uppá 50 mkr að ræða, hún er gerð með breytanlegu skuldabréfi og því er ekki lagt mat á verðmæti félagsins að svo stöddu. Ferlið var uppbyggilegt og við gáfum okkur öll góðan tíma í að undirbúa og stilla þessu upp. Við erum opin fyrir allt að 50 mkr. til viðbótar á sömu forsendum áður en haldið er í "Series A - round" t.d. með fagfjárfestum. Ég held að það sé alveg óhætt að óska okkur öllum sem sinnum sprotafyrirtækjum til hamingju á þessu stigi, ég vona að þetta sé ekki síður hvatning fyrir aðra engla að halda ótrauðir á vit nýrra ævintýra. Svo er bara að skila góðum árangri.