Búsvæði frumbyggja Amazon-frumskógarins hafa löngum verið varnarlína gegn eyðingu skógarins. Þær eru nú að bresta, m.a. í Brasilíu, að því er gögn gervitungla sem safnað hefur verið í tæpa fjóra áratugi sýna fram á.
Samkvæmt gögnunum er ólögleg námustarfsemi á landi frumbyggja og á öðrum svæðum sem eiga að njóta verndar í lögum sífellt að aukast. Svo umfangsmikil er starfsemin að hún hefur náð methæðum á síðustu árum þrátt fyrir ákall jafnt heimamanna sem alþjóða samfélagsins að standa vörð um Amazon, stærsta regnskóg jarðar.
Hin ólöglega starfsemi hefur aukist síðasta áratug en sérstaklega mikið frá því að Jair Bolsonaro settist á forsetastól í Brasilíu. Óttast er að orðræða hans og gjörðir hafi grafið undan bæði mannréttindum og umhverfisvernd. Með námuvinnslunni er gróður á svæðinu fjarlægður auk þess sem starfsemin mengar vatn, m.a. með kvikasilfri.
Vísindamenn jafnt sem náttúruverndarhópar hafa varað við þeim breytingum sem átt hafa sér stað í Amazon í stjórnartíð Bolsonaro. Á þessum tíma hafa heimamenn, frumbyggjar skóganna og Brasilíu, oftsinnis orðið fyrir árásum þeirra sem standa að námugreftrinum. Og þeir vilja aukna vernd fyrir sig og fjölskyldur sínar. Svæði frumbyggja njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum en engu að síður hefur Bolsonaro opinberlega sagt að þar ætti að auka námuvinnslu og aðra starfsemi.
„Þetta er alveg örugglega versta tímabil frumbyggja frá því að stjórnarskráin var undirrituð árið 1988,“ hefur tímaritið Nature eftir mannfræðingnum Glenn Shepard sem starfar í Brasilíu.
Samkvæmt greiningu gervitunglagagnanna hefur námuvinnsla á verndarsvæðum frumbyggja á Amazon-svæðum Brasilíu fimmfaldast á einum áratug. Oftast er um að ræða gullgröft í smáum stíl en engu að síður með miklum umhverfisáhrifum. „Við vissum eiginlega að þetta væri að gerast en að sjá tölurnar er ógnvekjandi,“ segir jarðfræðingurinn Cesar Diniz, sem leiddi rannsókn MapBiomas á umfangi námuvinnslunnar út frá gervitunglamyndum.
Eldri rannsóknir hafa ítrekað sýnt að lönd frumbyggjanna virka eins og verndarlína fyrir viðkvæmustu svæði regnskóganna og þar með gegn skógareyðingu. Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN hafa sett fram áætlanir í samstarfi við frumbyggja í Amazon um að tryggja að 80 prósent af regnskóginum verði enn til staðar árið 2025. Heimamenn ætla að leiða þá vinnu, sem gera þarf í samstarfi við stjórnvöld í hverju ríki.
Þeir hafa þegar mætt andstöðu í Brasilíu. Samtök frumbyggja (APIB) hafa nú farið með mál sín fyrir Alþjóða glæpadómstólinn í Haag þar sem þau saka stjórn Bolsonaro um mannréttindabrot og um að ýta undir þjóðarmorð með því að grafa undan réttindum frumbyggjanna, grafa undan umhverfisvernd og ýta undir árásir og ofbeldi með því að hvetja til frekari námuvinnslu. Samtökin hafa einnig bent á að hin brotin séu ekki einkamál frumbyggja heldur allra jarðarbúa vegna mikilvægis Amazon í loftslaginu.
Luiz Eloy Terena, mannfræðingur og lögfræðingur APIB, segir að besta leiðin til að bjarga regnskóginum sé að vernda og styðja við byggðir frumbyggja á svæðinu. Bolsonaro sagðist í ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í lok september „ákveðinn í því“ að vernda Amazon-skóginn og lagði áherslu á að um 600 þúsund manns lifðu þar í „frelsi“ á verndarsvæði sem væri um 14 prósent af Amazon-skógi Brasilíu. Hann hefur áður sagt að frumbyggjar hafi of mikið land til sinna nota.
Fyrrverandi forseti Brasilíu, Luiz Inácio da Silva, kom á regluverki og aðgerðaáætlun við upphaf aldarinnar sem miðaði að vernd regnskógarins. Markmiðin voru háleit og átti að draga úr skógareyðingu um 80 prósent á tæplega áratug. Spillingarmál þjökuðu Verkamannaflokk da Silva og var hann sjálfur fangelsaður vegna slíkra ásakana. Skemmst er frá því að segja að hans stóru markmið í umhverfismálum náðust ekki, m.a. vegna þess að árið 2012 veikti brasilíska þingið náttúruverndarlögin sem áttu að vernda Amazon. Í kjölfarið jókst skógareyðing, bæði vegna aukinnar námuvinnslu, lands sem brotið var undir landbúnað og fleiri þátta. Stökk varð svo í eyðingunni eftir að Bolsonaro tók við völdum fyrir um tveimur árum. Meðal þess sem stjórn Bolsonaro ætlar sér er að breyta lögum svo að ekki sé hægt að stækka verndarsvæði frumbyggjaþjóða í Amazon.
„Við munum aldrei gefast upp,“ José Gregorio Diaz Mirabal sem fer fyrir einum stærstu náttúruverndarsamtökunum sem efndu ítrekað til mótmæla í Brasilíu, höfuðborg Brasilíu, í ágúst og september. „Vísindin styðja okkar málstað og heimurinn er að vakna til vitundar.“
Aldrei fleiri varðmenn umhverfisins myrtir
Mirabal, sem er frá Venesúela og hefur barist fyrir vernd Amazon í fleiri ár, hefur ástæðu til að óttast mannréttindabrot stjórnvalda og hann og aðrir náttúruverndarsinnar hafa einnig ástæðu til að óttast um líf sitt.
Í fyrra voru 227 manneskjur sem börðust fyrir vernd náttúru og réttindum heimamanna, heimilum þeirra og lífsviðurværi, drepnar vegna skoðana sinna og baráttu. Aldrei hafa fleiri náttúruverndarsinnar verið drepnir á einu ári, segir í skýrslu Gobal Witness sem fylgst hefur með gangi þessara mála í tæpan áratug. Þetta er í raun annað árið í röð þar sem morðum á aktivistum fjölgar milli ára. Um þriðjungur morðanna tengist baráttu fólks fyrir vernd náttúruauðlinda í sínu næsta nágrenni, s.s. vernd fyrir skógarhöggi, námuvinnslu, stórtækum landbúnaði og stíflumannvirkjum.
Í skýrslu Global Witness segir að frá því að skrifað var undir Parísarsáttmálann árið 2015, þar sem þjóðir heims ákváðu að leggja sig fram við að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga, hafi að meðaltali fjórir baráttumenn náttúrunnar verið drepnir í hverri viku.
Ráðast til atlögu þar sem veikleikar eru fyrir
Langflest morðin eiga sér stað í fátækum löndum þar sem lagaumhverfið er viðkvæmt og oft fótum troðið fyrir tekjur af stórtækum framkvæmdum alþjóðlegra fyrirtækja. Í fyrra voru flest morð á „varðmönnum umhverfisins“, líkt og Global Witness kallar þennan hóp fólks, framin í Kólumbíu.
Fólk sem beitir sér fyrir umhverfisvernd þarf oft að búa við hótanir, að vera undir eftirliti og að verða sakað um glæpi sem það framdi ekki. Þá verður það fyrir alvarlegum glæpum á borð við nauðganir.
Global Witness segir að fjöldi þeirra sem týnir lífi vegna náttúrubaráttu sinnar sé örugglega vanmetinn.