John F. Campbell, hershöfðingi í Bandríkjaher, viðurkenndi að herinn hefði fyrir mistök gert loftárás á sjúkrahús Lækna án landamæra við Kunduz í Afganistan, 3. október síðastliðinn, með þeim afleiðingum að nítján létust, þar af níu starfsmenn sjúkrahússins. Þetta kom fram í dag, þegar hann fjallaði um árásina í Bandaríkjaþingi og svaraði spurningum. Sjúkrahúsið er gjörónýtt og mikilvægt starf þess á stríðshrjáðu svæði liggur niðri.
Hann vildi ekki nefna hver það hefði verið, sem fyrirskipaði árásina og á hvaða forsendum, en sagði að hún hefði verið tekin innan þess ákvarðanaferils sem væri í bandarískri stjórnsýslu og hjá Bandaríkjaher, þegar árásir sem þessar væru annars vegar.
Læknar án landamæra segja árásina vera stríðsglæp, en Campbell sagðist ekki geta gefið tæmandi upplýsingar um árásina að svo stöddu, fyrr en rannsókn væri lokið á því sem átti sér stað. Hann sagðist þó geta sagt að um mistök hefði verið að ræða, og þau væru hörmuleg í ljósi afleiðinganna.