Ath. Fréttin hefur verið leiðrétt og uppfærð eftir að upplýsingar bárust frá Hildi Björnsdóttur um að hún hafi skilað inn upplýsingum í gærkvöldi. Uppgjörið hefur þó ekki fengið staðfestingu Ríkisendurskoðunar ennþá og þar með ekki verið birt.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, skilaði upplýsingum til Ríkisendurskoðunar vegna kostnaðar við framboð sitt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fram fór fyrr á þessu ári í gær. Á vef Ríkisendurskoðunar má finna uppgjör frambjóðenda eða yfirlýsingu þeirra þess efnis að kostnaður hafi ekki farið yfir ákveðin viðmiðunarmörk. Ríkisendurskoðun sagði í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans fyrr í vikunni að hvorki hefði slík yfirlýsing né uppgjör borist frá Hildi vegna sveitarstjórnarkosninga. Kjarninn reyndi að hafa samband við Hildi Björnsdóttur við vinnslu fréttarinnar, án árangurs.
Hún hefur nú staðfest við Kjarnann að henni hafi borist uppgjör frá endurskoðanda í gærdag og sent það samdægurs á Ríkisendurskoðun sem staðfesti móttöku um leið. „Uppgjörið hefur þó ekki fengið staðfestingu Ríkisendurskoðunar ennþá og þar með ekki verið birt,“ segir Hildur.
„Frambjóðendum ber að skila Ríkisendurskoðun sérstöku fjárhagslegu uppgjöri um kosningabaráttu sína eigi síðar en þremur mánuðum frá því að persónukjörið fór fram. Frambjóðendur eru þó undanþegnir uppgjörsskyldu ef heildartekjur eða heildarkostnaður vegna kosningabaráttunnar var ekki umfram 550 þús.kr. Í þeim tilvikum er þó æskilegt að frambjóðendur skili sérstakri yfirlýsingu þar um,“ segir í svari Ríkisendurskoðunar.
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fór fram dagana 18. og 19. mars á þessu ári, svo þriggja mánaða fresturinn til að skila uppgjöri rann út upp úr miðjum júní. Fram kemur í svari Ríkisendurskoðunar að ekki séu veittir viðbótarfrestir en að stofnunin taki „vitaskuld á móti og birtir öll uppgjör sem berast, þótt framangreindur frestur sé liðinn.“
Í svarinu sagði enn fremur að listinn sé í stöðugri uppfærslu þessa dagana eftir því sem yfirlýsingar og uppgjör bærust. „Embættið vinnur að yfirferð nokkurra uppgjöra sem þegar hafa borist og verða þau birt um leið og yfirferð er lokið án athugasemda.“ Í hópi þeirra uppgjöra og yfirlýsinga sem birt hafa verið á heimasíðu Ríkisendurskoðunar var ekki að finna uppgjör Hildar Björnsdóttur. Hún hefur nú staðfest að hún hafi sent það til stofnunarinnar í gær í k
Framboð Ragnhildar Öldu kostaði 8,8 milljónir
Auk Hildar sóttist Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir eftir oddvitasæti flokksins í prófkjörinu. Ragnhildur hefur skilað uppgjöri til Ríkisendurskoðunar og samkvæmt því nam kostnaður framboðs hennar rúmum 8,8 milljónum króna. Stærsti kostnaðarliðurinn var Markaðskostnaður, rúmar 4,9 milljónir. Rekstur kosningamiðstöðvar kostaði framboðið tæpar 1,4 milljónir og kostnaður vegna launaðs starfsfólks nam tæpum 2,6 milljónum króna.
Samkvæmt uppgjöri framboðsins námu framlög fyrirtækja samtals tæpum 2,4 milljónum króna. Alls styrktu 19 fyrirtæki og lögaðilar framboðið og námu hæstu framlögin frá einstökum fyrirtækjum námu 200 þúsund krónum. Þar af leiðandi veitti ekkert fyrirtæki framboðinu hámarksstyrk sem er 400 þúsund krónur.
Aftur á móti veittu fjórir einstaklingar framboðinu hámarksstyrk. Þeir einstaklingar sem það gerðu voru foreldrar Ragnhildar, Vilhjálmur Egilsson og Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir, og systkini hennar, þau Anna Katrín Vilhjálmsdóttir og Ófeigur Páll Vilhjálmsson. Hvert um sig styrktu þau framboðið um 400 þúsund krónur en þar að auki styrktu 33 aðrir einstaklingar framboðið um tæpar 4,3 milljónar. Heildarstyrkir frá einstaklingum námu því tæpum 5,9 milljónum króna.
Uppgjör eða yfirlýsing borist frá tíu frambjóðendum af 26
Á vef Ríkisendurskoðunar eru þar að auki birt fjögur uppgjör frá frambjóðendum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Framboð Mörtu Guðjónsdóttur kostaði tæpar fjórar milljónir, framboð Helga Áss Grétarssonar kostaði tæpa 3,1 milljón, kostnaður við framboð Þorkels Sigurlaugssonar nam rúmum 2,2 milljónum og kosningabarátta Jórunnar Pálu Jónasdóttur kostaði tæplega 1,2 milljónir.
Þar að auki kemur fram á vef Ríkisendurskoðunar að fimm frambjóðendur hafi skilað inn yfirlýsingu um að kostnaður vegna framboðs þeirra hafi ekki farið yfir 550 þúsund krónur. Frambjóðendurnir sem hafa skilað slíkri yfirlýsingu eru: Ingibjörg Gréta Gísladóttir, Ólafur Kristinn Guðmundsson, Viðar Helgi Guðjohnsen, Þórður Gunnarsson og Örn Þórðarson.
Á vef Ríkisendurskoðunar má því finna uppgjör eða yfirlýsingu frá tíu frambjóðendum úr prófkjöri flokksins en í alls tóku 26 frambjóðendur þátt í prófkjörinu.