Það sem af er ári hefur rafmagnsreikningurinn fyrir Gardermoen-flugvöll í Ósló numið 136 milljónum norskra króna, rúmlega 1,8 milljarði íslenskra króna. Verðhækkanir á rafmagni í Noregi hafa gert að að verkum að yfirvöld hafa ákveðið að draga úr orkunotkun á flugvellinum og einn liður í því er að lækka hitastigið í flugvallarbyggingunum. Þetta er haft eftir Stine Ramstad Westby, framkvæmdastjóra Gardermoen, norska blaðinu Romerikes Blad.
Það verður þó ekki undir frostmarki inni í byggingunum heldur verður hitastigið lækkað um 1-2 gráður og fer því niður í um 20 gráður á þeim svæðum sem flugfarþegar fara um. Á öðrum svæðum verður hitastigið lækkað enn meira.
Með aðgerðunum vonast flugvallaryfirvöld til að spara 1,5 gígavattsstundir á ári sem jafngildir notkun um 75 einbýlishúsa í landinu.
„Við sjáum að rafmagnsreikningurinn hefur hækkað upp úr öllu valdi, þrátt fyrir að við séum með góða raforkusamninga og að byggingar okkar eru hannaðar með orkusparnaði í huga,“ segir Westby. „Þess vegna erum við að horfa til allra þátta sem geta lækkað kostnað okkar.“
Það hljómar ef til vill undarlega að það land í heiminum sem framleiðir næst mest af rafmagni á hvern íbúa standi frammi fyrir orkukrísu. Skýringarnar eru nokkrar. Í fyrsta lagi hefur söfnun í uppistöðulón vatnsaflsvirkjana á ákveðnum svæðum í landinu ekki gengið sem skyldi eftir þurrt og heitt sumar. Í öðru lagi er innrás Rússa í Úkraínu að hafa áhrif. Þau eru m.a. tilkomin vegna þess að Rússar hafa brugðist við viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins, sem Noregur styður, með því að draga verulega úr afhendingu gass til Evrópu. Hluti af raforkukerfi Noregs er tengdur meginlandinu. Það þýðir að framleiðendur og veitufyrirtæki geta selt rafmagnið til hæstbjóðanda. Eftirspurn eftir norsku rafmagni er því mikil og verðið hefur því hækkað.
Vill kjarnorkuver í Noregi
Norski milljarðamæringurinn Trond Mohn hefur lagt til að byggð verði kjarnorkuver í Noregi til að auka sjálfbærni landsins er kemur að orkuöflun. Hann hefur þegar stofnað fyrirtæki, Norsk Kjernakraft, í þeim tilgangi. Áform hans miða við að hægt verði að opna kjarnorkuver í Noregi að 10 til 15 árum liðnum.
Orkumálaráðherrann Terje Aasland hefur slegið þá hugmynd út af borðinu. Hann segir kjarnorkuver ekki vera raunverulega lausn á vandanum fyrir Norðmenn. Fjölmörg vandamál fylgi kjarnorkuverum. Þau séu dýr og geymsla geislavirkra efna sem falla til við framleiðsluna sé mikill vandi hjá öllum þeim ríkjum sem eru með kjarnorkuver.
António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, vill að öll ríki heims fjarlægi viðskiptahindranir sem standa í vegi fyrir því að rússneskur áburður sé fluttur frá landinu og á markað. „Ef áburðarmarkaðurinn nær ekki jafnvægi þá gæti heimsbyggðin orðið uppiskroppa með mat á næsta ári,“ skrifaði hann í Twitter-færslu í morgun, föstudag. Það sé því „nauðsynlegt“ að ríki afnemi allar hindranir hvað varðar innflutning á rússneskum áburði. „Við verðum að koma áburðinum til bænda á sanngjörnu verði og út á akrana sem allra fyrst.“
If the fertilizer market is not stabilized, next year the world may run out of food.
— António Guterres (@antonioguterres) September 23, 2022
It is essential that all countries remove every remaining obstacle to the export of Russian fertilizers.
We need to get them to farmers at a reasonable cost & on to fields as soon as possible.
Í frétt NRK í morgun kom fram að útgjöld norskrar vísitölufjölskyldu, tveggja fullorðinna og tveggja barna, verði 20 prósent hærri í ár en í fyrra. Norsk heimili eru þegar farin að draga úr notkun rafmagns og neysluvara. Stýrivextir voru hækkaðir í Noregi í gær þar sem verðbólga hefur aukist hratt á síðustu vikum.