Fyrir þá sem eru áfram í Sýrlandi, en freista þess ekki að hefja nýtt líf með því flýja stríðshrjáð svæði í landinu, er daglegt líf best lýst með orðinu „martröð“. Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun New York Times í dag, en blaðamennirnir Maher Saaman og Anne Barnard hafa dvalið í landinu að undanförnu og fylgt flóttamönnum eftir þegar þeir leggja land undir fót og freista þess að hefja nýtt líf í Evrópu, eftir mörg þúsund kílómetra ferðalag.
Staða mála í Sýrlandi hefur versnað hratt á undanförnum mánuðum og er talið að 9,5 milljónir manna, af ríflega 22 milljóna heildaríbúafjölda, sé á flótta vegna stríðsátaka. Tæplega fimm milljónir reyna nú að komast áfram til annarra landa, ekki síst í Evrópu, á meðan aðrir eru á flótta innan Sýrlands. Matar- og vatnsskortur er viðvarandi og aðstæður allar hinar ömurlegustu, hjá milljónum manna. Í umfjölluninni kemur enn fremur fram, að litla aðstoð sé að fá á stórum svæðum, og óttinn við byssukúlur og ofbeldi öfgamanna er „í loftinu“.
Margir óbreyttir borgarar hafa dáið í Sýrlandi eftir ógnvekjandi og miskunnarlaust ofbeldi. Samkvæmt umfjöllun New York Times eru 8.871 dauðsföll skýrð með því að viðkomandi hafi látið lífið eftir mannrán eða pyntingar. Þetta hafi gerst nánast handahófskennt gagnvart borgurum sem hafi kynnt undir mikinn ótta og gert það að verkum að margir sjái ekkert annað í stöðunni en að flýja land.
How #Syrians Are Dying - The New York Times http://t.co/TOTcMr7HaL
— Yuka Tachibana (@ytachibana) September 15, 2015