Samtökin Hjartað í Vatnsmýri segja áhættumat Isavia á lokun flugbrautarinnar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli sýna svart á hvítu að áhætta aukist ef brautinni verði lokað og að rekstraröryggi vallarins skerðist mjög. Í tilkynningu frá samtökunum segir ennfremur að niðurstöður matsins sýni að áhætta við lokun brautarinnar, sem flokkuð er í flokki B og er kölluð „þolanleg“, sé þvert á markmið um öruggar samgöngur þar sem stöðugt sé unnið að því að auka öryggi en ekki draga úr því og að flugfarþegar og sjúklingar muni ekki sætta sig við að fara úr frábæru flugöryggi niður í þolanlegt.
Samtökin vísa til áhættumats Isavia sem nýlega var birt á vef innanríkisráðuneytisins. Í skýrslunni kemur meðal annars fram það mat að hverfandi líkur séu á því að slys verði vegna lokunar flugbrautarinnar, sem oft er kölluð varaflugbrautin, þriðja flugbrautin eða neyðarbrautin.
Friðrik Pálsson, annar formanna Hjartans í Vatnsmýri, segir lokun brautarinnar hafa mikil áhrif á flugöryggi og því leggi áhættumatshópur Isavia til ýmsar mildunarráðstafanir. „Ljóst er af þeim tillögum að reynt er að dempa hina auknu áhættu án þess þó að eyða henni. Slík niðurstaða er með öllu óásættanleg fyrir farþega í innanlandsflugi og sýnir vel mikilvægi neyðarbrautarinnar. Það verður aldrei sátt um minna flugöryggi.“
Í tilkynningu er einnig haft eftir Njáli Trausta Friðbertssyni, hinum formanni samtakanna, að ákvörðun um lokun flugbrautarinnar hafi ekki verið tekin og að nothæfisstuðull vallarins muni lækka verulega við lokun. „Önnur af meginniðurstöðum Rögnunefndarinnar var að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurvallar uns fullkönnun og/eða framkvæmdum við nýjan flugvöll væri lokið. Það er ljóst af áhættumati Isavia að engin leið er að loka brautinni og tryggja um leið óbreytt flugöryggi og rekstraröryggi vallarins.“ segir Njáll Trausti.
Einnig kemur fram í tilkynningunni:
„Hjartað í Vatnsmýri bendir jafnframt á að ýmsir ágallar séu á áhættumatinu. Strax í öðrum kafla áhættumatsins koma fram alvarlegir þættir og segir þar orðrétt „þetta áhættumat tekur ekki á áhrifum á flugvallarkerfið í landinu, neyðarskipulag almannavarna [eða] sjúkraflutninga“. Við svo bætist að nothæfisstuðull sé ranglega reiknaður þar sem áhrifa bremsuskilyrða og vindhviða sé með öllu sleppt en það séu stærstu og alvarlegustu áhættuþættir við lendingar flugvéla að vetrarlagi í erfiðum aðstæðum. Þá er bent á að áhættumatshópurinn sé alfarið skipaður starfsmönnum Isavia og að aðkoma rekstraraðila og notendum vallarins hafi verið engin. Þá er bent á að Isavia hafi leyst upp fyrri áhættumatshóp reyndra sérfræðinga og flugstjóra sem lendi á vellinum árið um kring þegar í ljós kom að þeir töldu áhættuna við lokun brautarinnar óásættanlega.
Hjartað í Vatnsmýri segir einnig að „fráleitt sé að færa Reykjavíkurvöll niður í öryggismálum á meðan unnið sé að því að bæta öryggi á öllum öðrum sviðum í samgöngumálum Íslendinga. Flugið er lífæð landsins og ætti enginn að sætta sig við minna öryggi í flugi til þess eins að þjóna hagsmunum eins verktaka á Hlíðarendasvæðinu.”“