Markaðsvirði Íslandsbanka við lokun markaða í gær var 253,6 milljarðar króna og hefur aldrei verið hærra. Frá því að 35 prósent hlutur í bankanum var seldur í júní síðastliðnum hefur hlutabréfaverðið hækkað um 60 prósent, farið úr 79 krónum á hlut í 126,8 krónur á hlut. Það er mesta hækkun á virði bréfa í banka á Norðurlöndunum á því tímabili sem liðið er frá því að hlutafjárútboðið í Íslandsbanka fór fram.
Frá þessu er greint í fjárfestakynningu vegna uppgjörs Íslandsbanka á þriðja ársfjórðungi 2021 sem birt var í gær.
Bankinn hagnaðist um 7,6 milljarða króna á fjórðungnum, sem er sá fyrsti sem líður eftir skráningu hans á markað, og arðsemi eigin fjár hans var 15,7 prósent. Á fyrstu níu mánuðum ársins var hagnaður Íslandsbanka 16,6 milljarðar króna og arðsemi eigin fjár hans á ársgrundvelli var 11,7 prósent.
Hreinar þóknanatekjur bankans á fyrstu níu mánuðum ársins jukust um 20,1 prósent frá sama tímabili í fyrra og vaxtatekjur hans hækkuðu um 1,1 prósent, en þær voru 25,4 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins.
Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði úr 55,3 í 46,6 prósent milli ára en stjórnarkostnaður hækkaði, aðallega í tengslum við skráningu Íslandsbanka á markað, aukins launakostnaðar vegna kjarasamningshækkana og kostnaðar vegna uppsagna.
Um sjö þúsund hafa þegar selt
Í fjárfestakynningunni kemur fram að hluthafar í Íslandsbanka séu nú yfir 17 þúsund talsins. Eftir útboðið í sumar voru hluthafarnir um 24 þúsund talsins. Það þýðir að um sjö þúsund hafa þegar selt hlut sinn í Íslandsbanka á þeim fjórum mánuðum sem liðnir eru frá hlutafjárútboðinu.
Sá háttur var hafður á í útboðinu að allir sem skráðu sig fyrir einni milljón króna eða minna myndu ekki skerðast ef eftirspurn yrði umfram framboð. Þetta var gert til að draga sem flesta að þátttöku. Eftirspurnin reyndist níföld.
Hlutabréf í bankanum hækkuðu um 20 prósent strax á fyrsta degi eftir skráningu á markað og hafa síðan hækkað jafnt og þétt.
Sá sem keypti hlut í Íslandsbanka af íslenska ríkinu á eina milljón króna í júní gæti selt þann hlut í dag á 1,6 milljónir króna, og þar með hagnast um 600 þúsund krónur á rúmum fjórum mánuðum.
Íslenska ríkið enn langstærsti eigandinn
Íslenska ríkið er áfram stærsti eigandi Íslandsbanka með 65 prósent hlut en heimild er í fjárlögum til að selja þann hlut. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lýst yfir vilja til að gera það í nánustu framtíð og ljóst að það ferli er á meðal þeirra mála sem eru til umræðu nú þegar stjórnarflokkarnir þrír: Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn, ræða áframhaldandi stjórnarsamstarf.
Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi, Capital World Invsestors og RWC Asset Management skuldbundu sig við upphaf útboðsins á bréfum í Íslandsbanka sig til að kaupa um það bil tíu prósent af öllu útgefnu hlutafé bankans verða svokallaðir hornsteinsfjárfestar. Þessi hópur á í dag 12,3 prósent í bankanum og auk þess hefur Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins keypt 2,9 prósent allra hlutabréfa í honum.
Aðrir eigendur eiga eitt prósent eða minna, en tíu stærstu hluthafar Íslandsbanka eiga samtals 83,8 prósent útgefinna hlutabréfa í bankanum.
Arðsemi eigin fjár langt yfir markmiði
Sá mælikvarði sem stjórnendur banka nota til að mæla árangur sinn er ekki endilega hversu mikill hagnaður er í krónum talið, heldur hver hlutfallsleg arðsemi þessa eigin fjár er. Undanfarin ár hefur þessi arðsemi verið nokkuð döpur og verið undir markmiðum.
Íslandsbanki setti sér það markmið að ná átta til tíu prósent arðsemi á eigið fé fyrir lok árs 2022 og að til lengri tíma yrði arðsemin yfir tíu prósent.
Á fyrsta ársfjórðungi 2021 var arðsemin 7,7 prósent. Á þeim næsta var hún 11,6 prósent og þeim þriðja var hún orðin 15,7 prósent. Bankinn verður því að öllum líkindum langt yfir langtímamarkmiði sínu þegar árið 2021 verður gert upp.
Vaxta- og þóknanatekjur upp um milljarð milli ára
Mestu munar annars vegar um að hreinar vaxtatekjur hreinar þóknanatekjur uxu samanlagt um einn milljarð króna milli ára.
Vaxtatekjur myndast af vaxtamun, muninum á þeim vöxtum sem bankarnir greiða fólki og fyrirtækjum fyrir innlán sem þau geyma hjá þeim og vöxtunum sem þeir leggja á útlán.
Þóknanatekjur myndast vegna þóknana sem bankinn tekur fyrir t.d. eignastýringu eða fyrirtækjaráðgjöf. Í ljósi þess að íslensku bankarnir starfa nánast einvörðungu í íslensku hagkerfi þá verður að álykta að stór hluti viðskiptavina þeirra séu stærstu fagfjárfestarnir innan þess, íslenskir lífeyrissjóðir.
Hins vegar jukust hreinar fjármunatekjur um 900 milljónir króna, aðallega vegna jákvæðrar virðisbreytingar á fjárfestingu í óskráðum hlutdeildarfélögum.
Eigið fé Íslandsbanka var 197 milljarðar króna í lok september síðastliðins og eiginfjárhlutfall bnakans 24,7 prósent.
Yfirlýst markmið bankans er svo að greiða út 50 prósent af hagnaði hvers árs í formi hefðbundinna arðgreiðslna. Þá ætlar hann auk þess að nýta umfram eigið fé bankans til frekari arðgreiðslna eða kaupa á eigin bréfum.