Örfáum mínútum eftir opnun hlutabréfamarkaða í Kína í dag tók verð að hríðfalla og lækkuðu helstu hlutabréfavísitölur markaðarins um allt að átta prósent. Á innan við tíu mínútum höfðu hlutabréf í fleiri en þúsund fyrirtækjum lækkað um meira en tíu prósent og voru viðskipti með bréfin stöðvuð, samkvæmt reglum kínversku kauphallarinnar um sjálfvirka stöðvun viðskipta við verðfall. Um 1.400 fyrirtæki, sem telja ríflega helming allra fyrirtækja á kínverska markaðinum, óskuðu eftir frestun frekari viðskipta til þess að koma í veg fyrir verðhrun á markaðsvirði sínu. Við lokun markaða höfðu vísitölur lækkað um fimm til sjö prósent.
Mikið hefur verið um að vera á kínverskum hlutabréfamarkaði undanfarnar vikur og verð verið í frjálsu falli, mest á allra síðustu dögum. Kínversk stjórnvöld hafa á síðustu vikum reynt hvað þau geta til þess að ýta undir hlutabréfaverð, meðal annars með lækkun stýrivaxta, reglubreytingum sem eiga að draga úr hvata til þess að selja hlutabréf og nú síðast beinum kaupum á hlutabréfum. Aðgerðirnar hafa dugað skammt og söluþrýstingur á markaðinum hefur verið gríðarlegur. Kínverskir eftirlitsaðilar segja skelfingarástand fjárfesta órökrétt og róa nú öllum árum að stöðugleika á hlutabréfamarkaðinum.
Í síðasta mánuði stóð verð hlutabréfa á markaðinum í Sjanghaí í hæstu hæðum og hafði ekki verið hærra í sjö ár. Hlutabréf höfðu hækkað um rúmlega 150 prósent á síðustu tólf mánuðum en hafa nú fallið um 30 prósent á síðustu þremur vikum. Þar af nemur lækkunin 12 prósentum á síðustu viku. Verðlækkun upp á þrjátíu prósent jafngildir öllu framleiðsluvirði Bretlands á síðasta ári.
Í ljósi stærðar kínverska hlutabréfamarkaðarins og mögulegra áhrifa á aðra markaði, ekki síst í Asíu, þá hafa erlendir fjölmiðlar haldið því fram að kínverska hlutabréfakrísan sé jafnvel alvarlegri en gríska efnahagskrísan. Í umfjöllun The Telegraph segir að sumir vilji þegar kalla ástandið „Hið kínverska 1929“ og vísa þar til sögulegs verðfalls á hlutabréfamörkuðum það árs og upphaf Kreppunnar miklu.