Kauphöllin birti rangt dagslokaverð á hlutabréfum skráðra fyrirtækja eftir gærdaginn vegna tæknilegra örðugleika. Enn eru dagsbreytingarnar á vef Keldunnar rangar, en þær miða við dagslokaverð fyrirtækjanna á miðvikudaginn.
Vandræði í dreifingu markaðsgagna
Nasdaq Iceland greindi frá örðugleikunum í tilkyninngu til fjölmiðla í morgun, en þar kom fram rétt dagslokaverð fyrirtækjanna í gær. Kristín Jóhannsdóttir, samskiptastjóri hjá Kauphöllinni, sagði í samtali við Kjarnann að vandræði hafi komið upp við dreifingu markaðsgagna í gegnum upplýsingaveitukerfi sem íslenski markaðurinn styðst við, sem hafði áhrif á markaðinn og kauphallaraðila.
Fyrir vikið hafi markaðnum verið lokað á undan áætlun í gær og ákveðið var að fella niður öll viðskipti frá því vandamálið kom upp, sem var kl. 14:48. Kristín segir þó að málið sé leyst og að markaðurinn hafi opnað með eðlilegum hætti í morgun.
Aðspurð hvort loka hafi þurft markaðnum áður vegna tæknilegra örðugleika segir hún að það sé sem betur fer frekar sjaldgæft. Þó hafi slíkt gerst, en það kom síðast fyrir í nóvember 2019. „Hafandi sagt það, þá lítum við alltaf á svona atburð mjög alvarlegum augum og biðjumst velfirðingar á þessu,“ bætir hún við.
Græn Kauphöll í stað rauðrar
Flest fyrirtæki eru rauð á vef Keldunnar, sem gefur til kynna að virði þeirra hafi lækkað í dag. Þessar tölur miða hins vegar við dagslokagengi fyrirtækjanna í á miðvikudaginn, áður en markaðir hrundu í kjölfar innrásar Rússa inn í Úkraínu. Ef miðað væri við rétta dagslokagengi gærdagsins væru öll fyrirtæki græn þessa stundina, þar sem þau hækkuðu öll í verði frá því í gær.
Verðhækkunin hefur verið mest hjá Brim, en hún nam rúmlega ellefu prósentum í dag, ef miðað er við rétt dagslokagengi. Virði bréfa í Icelandair hækkaði einnig um sjö prósent í dag, en bréf fyrirtækisins eru tæpum þremur prósentum ódýrari en þau voru við lokun markaða á miðvikudaginn.