Hrein ný útlán bankanna til húsnæðiskaupa, það er útlán að frádregnum uppgreiðslum, á síðustu tólf mánuðum námu 393 milljörðum króna. Það er um þreföldun miðað við síðustu tólf mánuði þar á undan en þá námu hrein ný útlán bankanna 125 milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýbirtri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um húsnæðismarkaðinn.
Að því er fram kemur í skýrslunni hefur hlutdeild óverðtryggðra lána vaxið gríðarlega hratt undanfarið ár. Í lok maí síðastliðins voru óverðtryggð lán um 47,4 prósent af útistandanandi lánum en hlutfallið var 46 prósent mánuði fyrr. Í maí á síðasta ári var hlutdeild óverðtryggða lána tæplega 30 prósent.
Hrein ný útlán lífeyrissjóða neikvæð
Í skýrslunni segir að hrein ný útlán bankanna hafi aukist hratt á undanförnum misserum. Í maí námu hrein ný útlán bankanna 33,6 milljörðum króna sem er svipað og hefur verið allra síðustu mánuði. Til samanburðar voru hrein ný útlán bankanna í fyrsta skipti frá upphafi mælinga yfir 14 milljörðum króna í maí í fyrra.
Þessu er öfugt farið hjá lífeyrissjóðunum en hrein ný útlán þeirra hafa verið neikvæð frá því í júní í fyrra. Í maí síðastliðnum voru þau neikvæð um 6,2 milljarða króna en uppsafnað fyrir síðustu tólf mánuði hafa þau verið neikvæð um 59 milljarða króna.
Útistandandi íbúðalán heimilanna voru 2.092 milljarðar króna í lok maí og jukust um 12,8 prósent á milli ára. Það er mesta tólf mánaða aukning húsnæðislána síðan að minnsta kosti 2014.
Fjórðungur útlána á þessu ári á föstum vöxtum
Fólk sækir í meira mæli í óverðtryggð lán með föstum vöxtum samkvæmt skýrslu HMS. Það sem af er ári hefur fjórðungur af hreinum nýjum óverðtryggðum útlánum bankanna verið með föstum vöxtum en hlutdeild þeirra var að jafnaði um 13 prósent í fyrra. „Þetta er ef til vill til marks um að íbúðakaupendur vænti hækkandi vaxta á komandi misserum,“ segir í skýrslu HMS.
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um þá hefur starfsfólk stóru bankanna þriggja, Arion banka, Landsbankans og Íslandsbanka, fundið fyrir auknum áhuga almennings fyrir óverðtryggðum lánum með föstum vöxtum. Það er ekki síst vegna stýrivaxtahækkunar Seðlabankans í vor auk þess sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri mælti nýverið með því í hlaðvarpsþætti Snorra Björnssonar að fólk festi vexti á húsnæðislánum sínum.
Aldrei fleiri íbúðir selst yfir ásettu verði
Meðal þess sem einnig er fjallað um í mánaðarskýrslunni er viðvarandi eftirspurnarþrýstingur á fasteignamarkaði. „Mikil eftirspurn mælist nú eftir húsnæði og hefur það sett mark sitt á helstu hagvísa á fasteignamarkaði. Hækkanir á fasteignaverði eru áfram meiri en sem nemur aukningu kaupmáttar undangengna mánuði.“
Til marks um eftirspurnina hefur sölutími íbúða styst og er nú að jafnaði 38 dagar á höfuðborgarsvæðinu, miðað við meðaltal síðustu þriggja mánaða, en 78 dagar á landsbyggðinni. Því sé sterkur seljendamarkaður þessi misserin á höfuðborgarsvæðinu. „Talað er um að ef meðalsölutími fasteigna er styttri en 3 mánuðir sé það merki um seljendamarkað en þegar hann er 6 mánuðir eða meira er talað um kaupendamarkað. Þessar tölur benda því til þess að nú sé sterkur seljendamarkaður á höfuðborgarsvæðinu.“
Til marks um þennan sterka seljendamarkað þá hefur hlutfall íbúða sem selst yfir ásettu verði aldrei verið jafn hátt. Á landinu öllu seldust 32 prósent íbúða yfir ásettu verði en hæst var hlutfallið fyrir sérbýli á höfuðborgarsvæðinu, 42,7 prósent slíkra eigna seldust yfir ásettu verði. Hlutfallið var aftur á móti 32,7 prósent fyrir fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu. „Á landsbyggðinni voru sömu tölur 8% og 17%, fyrir fjölbýli annars vegar og sérbýli hins vegar.“