Í könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) í sumar, og fjallaði um húsnæðisstöðu öryrkja, kom í ljós að ellefu prósent svarenda greiddu yfir 75 prósent ráðstöfunartekna sinna í rekstur húsnæðis. Inni í þeirri tölu eru afborganir lána, leigukostnaður hiti og rafmagn.
Þetta kemur fram í umsögn ÖBÍ um frumvarp þingmanna Flokks fólksins um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu og húsaleigulögum. Þar segir enn fremur að niðurstöður könnunarinnar verði birtar opinberlega á næstu vikum.
Í umsögninni segir að ætla megi að tekjulágt fólk velji frekar að taka verðtryggð húsnæðislán vegna lægri afborgana í því vaxtaumhverfi sem ríkt hafi á húsnæðismarkaði, sérstaklega síðastliðið ár. „Verðbólgan er mjög há nú um stundir og alls óvíst hvort hún komi til með að lækka, hækka eða standa í stað næstu misseri. Greiðslubyrði lántaka hefur þyngst verulega og þá sérstaklega hjá þeim hóp sem tók óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum á þeim tíma sem stjórnvöld töluðu á þann hátt að nú væri lávaxtarskeið hafið. Þær forsendur sem þessir lántakar settu sér eru algjörlega brostnar og eru mörg heimili með alltof háa greiðslubyrði.“
Gríðarlegar hækkanir á afborgunum óverðtryggðra lána
Verðbólga mælist sem stendur 9,3 prósent. Í slíku ástandi hækkar höfuðstóll verðtryggðra lána mikið enda leggjast verðbætur á hann. Á móti haldast afborganir skaplegri, enda þeim í raun ýtt inn í framtíðinni.
Til að sporna við þessari stöðu hefur Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkað stýrivexti úr 0,75 í 5,75 prósent frá því í maí í fyrra. Vextir hafa verið hækkaðir á við síðustu níu vaxtaákvarðanir nefndarinnar, en þeir voru 0,75 prósent í maí í fyrra.
Hækkun stýrivaxta skilar sér í hækkun á afborgunum óverðtryggðra lána sem eru með breytilega vexti. Í nýjasta Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands kom fram að um 28 prósent útistandandi fasteignalána eru óverðtryggð og með breytilegum vöxtum. Samanlögð upphæð þeirra eru á sjöunda hundrað milljarða króna. Vaxtabyrði slíkra lána hefur þegar hækkað verulega.
Í ritinu var nefnt að vegnir meðalvextir nýrra íbúðalána sem veitt voru af bönkunum í júlí 2021 voru 3,7 prósent en ári síðar voru þeir komnir upp í 6,6 prósent. Fyrir 40 milljóna króna óverðtryggt jafngreiðslulán til 40 ára á breytilegum vöxtum felur slík vaxtahækkun í sér rúmlega 77 þúsund króna hækkun á mánaðarlegri greiðslubyrði eða sem samsvarar tæpum 48 prósent af upphaflegri greiðslubyrði lánsins.“
Óverðtryggðir vextir stóru bankanna þriggja, sem halda á 72 prósent af útistandandi íbúðarlánum, hafa ekki verið jafn háir og þeir eru nú síðan 2015.
Þá styttist í endurskoðun á vaxtakjörum fjölda óverðtryggðra lána sem veitt voru á föstum vöxtum til tiltekins tíma, en alls verða vextir á lánum upp á 340 milljarða króna endurskoðaðir á árunum 2023 og 2024 og vextir á lánum upp á 250 milljarða króna koma til endurskoðunar árið 2025. Þorri þeirra lána eru óverðtryggð.