Bækur frá öllum hliðum eru í forgrunni í Bókahúsinu, nýju hlaðvarpi Forlagsins sem Sverrir Norland rithöfundur stýrir. Sverrir leggur áherslu á að skoða bækur frá sjónarhóli fleiri en aðeins höfundanna sem skrifa þær:
„Þetta er óvenjulegt og frumlegt hlaðvarp í þeim skilningi að það er fjallað um bækur á öllum stigum,“ segir Sverrir. „Ég ræði við ritstjóra bóka, bókahönnuði, bóksala, markaðsfólk, fólk á lager, þá sem búa til hljóðbækur og svo framvegis. Ég fjalla því í raun um alla framkvæmdina að baki því að búa til bækur. Í dag er bók svo ekki bara prentuð bók heldur líka rafbók og hljóðbók svo að við pælum líka í því. En rithöfundarnir eru þó alltaf í forgrunni – enda aragrúi af skemmtilegum bókum að koma út þessa dagana.“
Nafngiftin Bókahúsið er ekki gripin úr lausu lofti en hlustendur ferðast ásamt Sverri og gestum um óendanlega stórt og ævintýralegt hús í þáttunum: „Já, hlustendur eru leiddir í gegnum hvern þátt á leikglaðan og skemmtilegan hátt,“ segir Sverrir „Fyrst stíga þeir inn í anddyrið og fá kynningu á efni þáttarins, næst tylla þeir sér inn í betri stofuna og hlusta á viðtal við skáldsagnahöfund, fara þaðan inn í blóðugu borðstofuna þar sem þeir stíga yfir lík með hníf í bakinu og fyllast svolitlum óhugnaði; á eftir er kærkomið að fá sér ferskt loft úti á svölum og skyggnast kannski út í heim til að fræðast um nýjar þýðingar – og svo framvegis. Uppi á háalofti og í kjallaranum leynast svo köngulóarvefir, gömul leyndarmál, kannski lík… svo að það er frjór staður til að taka höfunda hrollvekja í viðtal.“
Komnir eru út fjórir þættir og fær Sverrir til sín góða gesti í hverjum þætti. Þeirra á meðal eru Halldór Guðmundsson, Fríða Ísberg, Ingólfur Eiríksson, Sigþrúður Gunnarsdóttir ritstjóri, Emilía Erla Ragnarsdóttir bókahönnuður, Einar Kárason, Rán Flygenring teiknari, Gunnar Helgason, Sigrún Pálsdóttir, Haukur Ingvarsson, Lilja Sigurðardóttir og Jónína Leósdóttir. Einnig er mikið lagt upp úr hljóðheimi hlaðvarpsins. Frumsamin tónlist ómar í eyrum hlustenda en það er tvíeykið Urmull og kraðak sem á heiðurinn af henni.
Að sögn Sverris er áhersla lögð á að hafa andrúmsloftið í Bókahúsinu afslappað og skemmtilegt.
„Gott bókahlaðvarp fjallar í raun um mannlífið á jörðinni eins og það leggur sig því að í bókum er fjallað um allt. Ég er gestgjafinn í Bókahúsinu býð viðmælendur og hlustendur velkomna til mín og svo ræðum við um allt milli himins og jarðar. Ef okkur finnst gaman að gera hlaðvarpið finnst áhorfendum skemmtilegt að hlusta á það – eða það vona ég.“
Bókahúsið er hægt að nálgast á vef Forlagsins og á helstu hlaðvarpsveitum.