Tillaga Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðráðherra um að útsvar verði hækkað um 0,26 prósentustig en tekjuskattur lækkaður hefur ekki verið borin undir ríkisstjórnina.
Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag þegar Logi Einarsson, formaður og þingmaður Samfylkingarinnar, spurði út í áformin sem innviðaráðherra ræddi á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í síðustu viku.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, sagði í ræðu sinni á ráðstefnunni að ljóst væri að umfang þess fjárhagsvanda sem sveitarfélög landsins glíma við vegna aukins kostnaðar í tengslum við málefni fatlaðs fólks sé orðið af þeirri stærðargráðu að tilefni gæti verið til að mæta honum sem fyrst með ráðstöfunum til bráðabirgða, þar til fullnaðaruppgjör og greining liggur fyrir af hálfu sérstakrar nefndar sem hefur málið til umfjöllunar.
Hugmyndin sem Sigurður Ingi viðraði felst í því að hækka útsvarsprósentuna sem sveitarfélög innheimta um 0,26 prósentustig til að skila þeirri tekjuaukningu sem til þarf til að brúa bilið í málaflokknum. Á móti yrðu öll skattþrep í tekjuskatti ríkisins lækkuð um 0,26 prósentustig til að allir skattgreiðendur væru jafnsettir eftir sem áður.
Sveitarfélög landsins hafa reiknað sig niður á það að gliðnun tekna og útgjalda í málefnum fatlaðra, sem voru færð frá ríki til sveitarfélaga í byrjun árs 2011, hafi verið orðin níu milljarðar árið 2020. Nýverið hefur komið fram af hálfu sveitarfélaga að gliðnunin stefni í 12-13 milljarða króna á ári. Sveitarfélögin segjast ekki hafa neina getu til að takast á við þessa gliðnun og því þurfi ríkið að koma til með því að tryggja þeim meira fjármagn.
Útfærslan kemur á óvart
Logi sagði áform innviðaráðherra um 5-6 milljarða innspýtingu í málaflokkinn gleðilega. Útfærslan, að hækka hámarksútsvarsprósentu sveitarfélaga um 0,26 prósentustig en lækka á móti tekjuskatt sem ríkið innheimtir á móti sem því nemur, hafi hins vegar komið á óvart þar sem hún hafi ekki verið rædd áður. „Hvorki í fjárlaganefnd eða efnahagsnefnd og þingmenn stjórnarflokkanna virtust koma af fjöllum,“ sagði Logi á Alþingi í dag.
Hann sagðist jafnframt trúa „svona afgerandi yfirlýsingu frá ráðherra“ og beindi í framhaldinu þremur spurningum að forsætisráðherra.
„Í fyrsta lagi: Hvenær var þetta samþykkt í ríkisstjórn?“
Í öðru lagi: Af hverju birtust þessar fyrirætlanir ekki strax við framlagningu fjárlaga fyrr í haust þar sem þessi vandi hefur blasað við í svo langan tíma?“
„Í þriðja lagi: Þar sem ljóst er að útfærsla sem innviðaráðherra tilkynnti mun lækka tekjur ríkissjóðs umtalsvert, sér forsætisráðherra fyrir sér nýja tekjustofna sem munu bæta þetta upp? Á að skila ríkissjóði með meiri halla en áður var gert ráð fyrir eða verða útgjöld skorin niður og hver þá?“
Vinna starfshóps um málaflokkinn hefur dregist á langinn
Í svari sínu benti Katrín á að í máli Sigurðar Inga á fjármálaráðstefnunni hefði komið fram að það kæmi til greina að hækka hlut útsvarsins. Hópur hefur verið að störfum undir forystu félagsmálaráðherra sem átti að skila af sér frekari greiningu á þeim kostnaði sem fellur á sveitarfélögin vegna málaflokks fatlaðra í haust. Það hefur dregist og mun hópurinn líklega ekki skila af sér fyrr en í febrúar, að sögn Katrínar.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í setningarræðu fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í síðustu viku að vanfjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks væri meginorsök fjárhagsvanda margra sveitarfélaga.
Í yfirstandandi viðræðum sveitarfélaga og ríkisins leggi sambandið þunga áherslu á að þetta verði leiðrétt og sveitarfélögum verði gert kleift að veita fötluðu fólki fyrirmyndar þjónustu án þess að það ógni sjálfbærni fjármála sveitarfélaga. „Mikilvægt er að niðurstaða viðræðna liggi fyrir eigi síðar en 1. desember 2022 og sveitarfélögum verði strax bætt vanfjármögnun málaflokksins,“ sagði Heiða Björg.
Tekjustofnar séu fullnýttir áður en komi til frekari fjárveitinga
Katrín sagðist, líkt og líklega allir þingmenn hafi kynnst í nýliðinni kjördæmaviku, að staða sveitarfélaganna sé þung og að bregðast þurfi hratt við. Katrín sagði málin ennþá í vinnslu og þess vegna hafi þessi tillaga ekki verið hluti af fjárlagafrumvarpi og hafa ekki farið endanlega í gegnum ríkisstjórn.
„Ég leyfi mér hins vegar að segja að það er skilningur hjá öllum forystumönnum ríkisstjórnarflokkanna á að það þurfi að einhverju leyti að mæta sveitarfélögunum vegna málaflokks fatlaðra,“ sagði Katrín og nefndi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í því samhengi. Sigurður Ingi sagði í ræðu sinni á ráðstefnunni að öll hækkun útsvarsprósentunnar þyrfti að ganga til hækkunar á hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í útsvarstekjum.
Katrín sagði mikilvægt að nýta jöfnunarsjóðinn til að tryggja að fjármunirnir nýtist þar sem þeirra er þörf. „Einnig þarf að skoða það þegar sveitarfélögin eru ekki að fullnýta sína tekjustofna. Við getum rætt um útsvarsprósentur, við getum líka rætt fasteignagjöld. Við þurfum auðvitað að taka afstöðu til þess hvort þá sé eðlilegt að auknir fjármunir renni til þeirra sveitarfélaga sem hafa kosið að fullnýta ekki sína tekjustofna. Ég hef skýra sýn á það að mér finnst eðlilegt að þeir tekjustofnar séu fullnýttir áður en til frekari fjárveitinga kemur,“ sagði Katrín.
Ekki hugmynd sem „dettur ofan í hausinn“ á innviðaráðherra
„Þetta hefur sem sagt ekki verið ákveðið,“ sagði Logi, sem bað forsætisráðherra um að tala skýrar þar sem hann hafi ekki „hitt eina manneskju sem kom út af fjármálaráðstefnunni sem áttaði sig á því að þetta væri svona einhver hugdetta hæstvirts ráðherra“. Þá spurði Logi hvort það væri ekki kominn tími til þeim linni, þessum látlausum yfirlýsingum frá ráðherrum Framsóknarflokksins, sem eru ekki hugsaðar til neins annars en að setja væntingar fólks í hæstu hæðir?
Katrín sagði að ekki væri um að ræða hugmynd sem dettur ofan í hausinn á innviðráðherra. „Auðvitað er það ekki svo. Hann talar ekki með slíkum óábyrgum hætti. Það sem kom fram í máli hans er að þetta er til skoðunar, þetta er ekki að fullu útfært,“ sagði Katrín.
Forsætisráðherra sagði fullan skilning á þungri stöðu sveitarfélaganna vegna málaflokks fatlaðs fólks en sagði mikilvægt að það sé algjörlega skýrt að endanleg útfærsla liggur ekki fyrir. „Þess vegna kom þetta ekki fram við framlagningu fjárlagafrumvarps og hefur ekki verið endanlega afgreitt úr ríkisstjórn. Vissulega er málið ekki fullbúið en ríkur skilningur fyrir hendi á að staðan sé þung og það skiptir máli að við komum til móts við hana.“