Sú heimssýn sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti aðhyllist er náskyld nasisma Hitlers og fasisma Mússólínís og mjög hættuleg lýðræðisríkjum. Þetta kemur fram í grein Gylfa Zoega, hagfræðiprófessors við HÍ, og Juan Vicente Sola, lögfræðiprófessors við háskólann í Buenos Aires, í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Dapurt efnahagsástand
Samkvæmt Gylfa og Juan er mögulegt að Pútín hafi ákveðið að láta her sinn ráðast inn í Úkraínu til þess að sameina þjóðina á bak við sig á tímum mikilla efnahagsþrenginga. Efnahagur landsins líti ekki vel út í alþjóðlegum samanburði, þar sem sá hagvöxtur sem náðist á fyrstu valdaárum forsetans hafi smám saman fjarað út. Síðustu tíu árin hafi svo verið algjör stöðnun í efnahagslífi landsins.
Landsframleiðsla Rússlands á mann er nú helmingi lægri en hún er í Svíþjóð, ef tekið er tillit til mismunandi verðlags í löndunum. Sömuleiðis eru sex sinnum fleiri banaslys í umferðinni í Rússlandi og níu sinnum fleiri morð. Þessir þættir, auk meiri jöfnuðar á milli kynjanna, meiri nýsköpunar, meiri frjósemi og lengri lífslíkna, benda til þess að lífskjör séu langtum verri í Rússlandi heldur en á Norðurlöndunum.
Daprari heimssýn
Þegar skyggnst er inn í hugmyndafræði og heimssýn Pútíns og nánustu bandamanna hans kemur þó í ljós mun ógnvænlegri mynd en að innrásin hafi einungis verið leið hans til að afla sér vinsælda, bæta höfundarnir við.
Einn af helstu hugmyndafræðingum í nánasta umhverfi forsetans er Aleksandr Dugin. Samkvæmt Gylfa og Juan sækir hann hugmyndir sínar til einræðisherranna Mússólíní á Ítalíu og Perón í Argentínu, en byggja að miklu leyti á því að finna sér sameiginlegan óvin. Í hugarheimi Dugins eru Bandaríkin helsti óvinur Rússlands, sem ætti að vera leiðandi ríki á Evrasíuflekanum.
Þjóðarsátt rofin
Þrátt fyrir þessa heimssýn er óvíst hvort Pútín hafi getuna til þess að framfylgja þessum áformum.
Samkvæmt höfundunum er efnahagsstefna forsetans, sem byggir á þjóðarsátt á milli almennings, auðhringja og ríkisins. Slík sátt fól í sér að pólitískum völdum auðhringja væru settar skorður á meðan þeir fengju að arðræna almenning, sem naut þess í stað lífskjarabóta vegna hagvaxtar á kostnað borgaralegra réttinda.
Þessi leið hefur ekki náð að skapa viðvarandi hagvöxt og því segja Gylfi og Juan að þjóðarsáttin sé nú rofin eftir tíu ára stöðnun í efnahagslífinu. „Veikt hagkerfi, efnahagshremmingar, hernaðarósigrar og þrýstingur frá mæðrum hermanna geta þó haldið aftur af honum,“ skrifa Gylfi og Juan. „Vonum það besta,“ bæta þeir við.
Hægt er að lesa grein Gylfa og Juan í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.