Evrópusambandið samþykkti í gær viðskiptaþvinganir sem beindar eru ríkisfyrirtækjum og ólígörkum í Hvíta-Rússlandi. Nú mega hvítrússnesk flugfélög ekki fljúga um evrópska lofthelgi eftir að stjórnvöld þar í landi neyddu Ryanair flugvél til að lenda vegna falskrar sprengjuhótunar.
Nauðlending Ryanair-flugvélarinnar var liður í aðgerðum hvítrússneskra stjórnvalda við að fangelsa pólitíska andstæðinga Alexander Lukashenko, forseta landsins til síðustu 27 ára.
Blaðamaður, bloggari og aktívisti
Roman Protasevich er 26 ára gamall blaðamaður, bloggari og aktívisti frá Hvíta-Rússlandi sem átti þátt í að skipuleggja mótmælin í kjölfar síðustu forsetakosninga þar í landi síðasta sumar. Kjarninn hefur áður fjallað um mótmælin, en mörg hundruð þúsund mótmæltu endurkjöri Lukashenko þrátt fyrir að skoðanakannanir bentu til þess að mótframbjóðandi hans, Svetlana Tikhanovskaya, væri með 70-80 prósenta fylgi. Eftir úrslitin flúði Tikhanovskaya land og er nú í sjálfskipaðri útlegð í Litháen.
Samkvæmt BBC var Protasevich einn af stofnendum spjallrásarinnar Nexta á samskiptaforritinu Telegram, sem tæpar tvær milljónir manna fylgdu og var notuð til að skipuleggja götumótmæli og deila myndefni um lögregluofbeldi í Hvíta-Rússlandi.
Ríkisstjórn Lukashenko reyndi að koma í veg fyrir skipulagningu mótmæla með þessum hætti og slökkti á farsímakerfinu og aðgangi að netinu í 121 dag eftir kosningarnar. Enn er læst fyrir notkun sumra forrita, líkt og Telegram.
Yfirvöld hafa lagt fram ákæru í þremur liðum gagnvart Protasevich vegna mótmælanna, en samkvæmt Financial Times er búist við að hann verði dæmdur til fimmtán ára fangelsisvistar. Sjálfur hefur Protasevich sagt að dauðarefsing bíði hans í Hvíta-Rússlandi.
Handtaka með falskri sprengjuhótun
Protasevich, líkt og Tikhanovskaya, hefur haldið sig fyrir utan Hvíta-Rússland síðustu misserin, en hann er líka með lögheimili í Litháen. Hvítrússnesk yfirvöld náðu hins vegar að handsama hann með því að snúa við Ryanair flugvél í þeirra lofthelgi með hann innanborðs og neyða hana til að lenda á flugvellinum í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands.
Samkvæmt ríkisfjölmiðlum þar í landi ákváð Lukashenko að snúa vélinni, sem var á leið til Litháen frá Grikklandi, vegna sprengjuhótunar. Starfsmenn á flugvellinum í Minsk hafa síðan staðfest að sprengjuhótunin hafi verið fölsk.
Protasevich greindi sjálfur frá því á sunnudaginn að meðlimur hvítrússnesku leyniþjónustunnar, KGB, hafði fylgt honum í flugvélina og reynt að taka myndir af skjölunum hans.
Stjórnvöld grunuð um að pynta Protasevich
Við lendinguna í Minsk var blaðamaðurinn svo handtekinn, ásamt kærustu sinni, og settur í varðhald. Degi síðar birti spjallrás á Telegram sem er hliðholl Lukashenko myndband af Protasevich, þar sem hann segist vera í fangelsi í Minsk.
Blaðamaðurinn er með marblett á enninu í myndbandinu, en segir þó að vel sé farið með hann í fangelsinu. Hann bætir einnig við að hann sé að fullu samvinnuþýður við hvítrússnesk stjórnvöld. Myndbandið má sjá hér að neðan.
Myndband af Roman Protasevich, blaðamanni sem er í haldi ríkisstjórnar Hvíta-Rússlands.
Áðurnefnd Tikhanovskaya, sem er leiðtogi hvítrússnesku stjórnarandstöðuhreyfingarinnar, sagði á blaðamannafundi í gær að það væri augljóst út frá myndbandinu að Protasevich hafi verið pyntaður í varðhaldi. Samkvæmt frétt Reuters um málið hafa hvítrússnesk yfirvöld ekki svarað ásökunum Tikhanovskaya, en þau hafa áður neitað því að beita fanga sína ofbeldi.
Vesturlönd fordæma og beita refsiaðgerðum
Fjölmörg Vesturlönd hafa fordæmt handtökuna á Protasevich og atburðunum í aðdraganda hennar. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, kallaði nauðlendingu Ryanair á Minsk-flugvellinum „flugrán“ í Twitter-færslu sem hún sendi frá sér á sunnudaginn, auk þess sem hún kallaði eftir því að Protasevich yrði leystur úr haldi tafarlaust. Svipuð yfirlýsing kom frá Guðlaugi Þór Þórðarssyni utanríkisráðherra á Twitter sama dag, sem sjá má hér að neðan.
Alarmed by reports of #Ryanair being forced to land in #Minsk. #Pratasevich must be released immediately and passengers allowed to continue to their destination.
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) May 23, 2021
Í gær samþykktu aðildarríki Evrópusambandsins svo refsiaðgerðir í garð Hvíta-Rússlands, sem fela meðal annars í sér bann hvítrússneska ríkisflugfélagsins við að fljúga um lofthelgi sambandsins. Auk þess hvöttu leiðtogarnir evrópsk flugfélög til að forðast hvítrússneska lofthelgi, en líkt og sjá má á vefsíðunni Flight Radar virðast flest þeirra virða þá ósk, þar sem örfáar flugvélar fljúga nú yfir landið.
Refsiaðgerðir ESB munu einnig beinast að öðrum hvítrússneskum ríkisfyrirtækjum og óligörkum þar í landi, sem eru sakaðir um að fjármagna Lukashenko. Samkvæmt sambandinu væru slíkar aðgerðir, sem eru sérhæfðari en almennt viðskiptabann, líklegar til að skaða Lukashenko og bandamenn hans án þess að hvítrússneska þjóðin hlyti skaða af.
Joe Biden Bandaríkjaforseti fagnaði ákvörðun Evrópusambandsins í opinberri yfirlýsingu og gaf til kynna að Bandaríkjastjórn myndi einnig beita samskonar aðgerðum.
Rússland gagnrýnir aðgerðir ESB
Utanríkisráðuneyti Hvíta-Rússlands varði hins vegar ákvörðun þarlendra stjórnvalda um að snúa Ryanair-flugvélinni með Protasevich innanborðs við í hvítrússneskri lofthelgi. Anatoly Glaz, talsmaður ráðuneytisins, sagði í viðtali við Financial Times að flugyfirvöld þar í landi hafi fylgt settum alþjóðareglum í einu og öllu og sakaði Evrópusambandið um að hlaupa á sig með stríðsyfirlýsingar.
Stjórnvöld í Rússlandi taka undir yfirlýsingar Hvíta-Rússlands og segjast hneyksluð á viðbrögðum Evrópusambandsins. Maria Zakharova, talsmaður utanríkisráðuneytis Rússlands sagði það vera „átakanlegt“ að Vesturlönd brygðust svona hart við atvikinu, sem hefði átt sér stað í hvítrússneskri lofthelgií nýlegri Facebook-færslu.