„Mitt gisk er að hann ráðist inn,“ sagði Joe Biden, Bandaríkjaforseti, um Vladimír Pútín, forseta Rússlands, sem hefur sent allt að 100 þúsund hermenn að landamærum Úkraínu á síðustu dögum. Vesturveldin hafa nú hvert á fætur öðru tilkynnt að slíkri innrás yrði mætt með hörðum aðgerðum, til dæmis með hugsanlegri lokun Nord Stream gasleiðslunnar.
Vesturveldin samstíga
Samkvæmt umfjöllun Reuters-fréttastofunnar um málið hitti utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, ráðherra Bretlands, Frakklands og Þýskalands í Berlín í dag til að ræða viðbrögð við hugsanlegri innrás Rússa. Á blaðamannafundi í kjölfar fundarins sagði hann að löndin yrðu samstíga í sínum aðgerðum, en þær færu eftir því hvaða leið Rússland vilja fara.
Yfirlýsingar Blinken koma degi eftir að Biden sagði að Vesturveldin væru ósammála um hvernig væri rétt að bregðast við „smávægilegri innrás,“ en þau ummæli mættu mikilli gagnrýni frá leiðtogum Evrópuþjóða. Volodomyr Zelenskiy, forseti Úkraínu, svaraði Biden með Twitter-færslu þar sem hann sagði enga innrás vera smávægilega, á sama hátt og að ekkert manntjón væri smávægilegt.
Bandaríkjastjórn dró til baka þessi ummæli seinna um kvöldið, þar sem Jen Psaki, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, sagði að Vesturlönd myndu setja harðar og samræmdar refsiaðgerðir á Rússland ef rússneski herinn fer yfir landamæri Úkraínu.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, voru sama sinnis og sögðu í dag að hvers kyns innrás myndi hafa slæmar afleiðingar fyrir Rússa.
Gasleiðslan samningatæki
Kanslari Þýskalands, Olaf Scholz, hefur áður sagt að hann væri opinn fyrir viðskiptaþvingunum við Rússland ef innrásin verður að veruleika. Aðspurður um hvort slíkar þvinganir fælu í sér lokunar á Nord Stream 2 gasleiðslunni, sem liggur í gegnum Eystrasalt, útilokaði Scholz það ekki.
Kjarninn hefur áður fjallað um Nord Stream 2 leiðsluna, en hún er að mestu í eigu rússneska ríkisfyrirtækisins Gazprom. Leiðslan er tilbúin en hefur ekki enn verið tekin í gagnið, þar sem hún hefur ekki fengið heimild til þess frá þýskum yfirvöldum.
Lokun Nord Stream 2 myndi hafa mikil áhrif á efnahag Rússlands, en helmingur útflutningstekna landsins er í gegnum útflutning á jarðgasi. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði að leiðslan myndi auka orkuöryggi Evrópu og að tilraunir til að blanda pólitík inn í það verkefni yrðu ekki vænlegar til árangurs.
SWIFT-lokun hent af borðinu
Aðrar tegundir af viðskiptaþvingunum hafa einnig verið ræddar á meðal Vesturveldanna, en ein þeirra fól í sér að útiloka Rússland úr alþjóðlega SWIFT-greiðslukerfinu. Hins vegar hurfu Evrópusambandið og Bandaríkin frá þeim áformum fyrr í vikunni, þar sem þau gætu leitt til uppnáms á fjármálamörkuðum og hvatt til byggingar annars konar greiðslukerfis sem Vesturlönd ættu enga aðkomu að.
Í viðtali Bloomberg við embættismann frá Evrópusambandinu voru mörg lönd mótfallin því að útiloka Rússa frá SWIFT-kerfinu, þótt möguleikinn sé ekki alveg útilokaður. Hins vegar væri líklegt að rússneskir bankar yrðu í eldlínunni, kæmi til átaka á milli Rússlands og Úkraínu.
Hóta sjálfir að grípa til hernaðaraðgerða
Rússnesk yfirvöld hafa gefið út að yfirlýsingarnar frá leiðtogum Vesturlandanna væru ekki til þess fallnar til að lægja öldurnar. Sömuleiðis þvertaka þau fyrir það að vera búin að skipuleggja innrás, en hóta þó hernaðaraðgerðum ef Atlantshafsbandalagið lofar að samþykkja inngöngu Úkraínu í sambandið.
Ríkisstjórn Bretlands tilkynnti fyrr í vikunni að hún myndi útvega úkraínskum stjórnvöldum vopn til að verjast hugsanlegri innrás Rússa. Sömuleiðis hefur ríkisstjórn Bandaríkjanna gefið Eystrasaltsríkjunum leyfi til að gefa Úkraínu bandarísk flugskeyti.