Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins ræddu mál flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Sigmundur Davíð spurði ráðherrann meðal annars hvort íslensk stjórnvöld hygðust styðja við löndin næst Úkraínu vegna hins gríðarlega fjölda flóttamanna sem þangað sækir eftir innrás Rússa.
Sigmundur Davíð hóf mál sitt á því að vísa í orðræðu dómsmálaráðherra, Jóns Gunnarssonar, þar sem hann vakti athygli á því fyrir nokkrum dögum að „hælisleitendakerfið á Íslandi væri í ólagi og sá vandi gerði okkur erfitt fyrir núna þegar við stöndum frammi fyrir því að taka á móti töluverðum fjölda flóttamanna frá Úkraínu“.
Dómsmálaráðherra sagði í samtali við mbl.is þann 25 febrúar að íslensk stjórnvöld væru opin fyrir því að taka á móti flóttamönnum frá Úkraínu. Það sem tefði fyrir því væri aftur á móti sá fjöldi hælisleitenda sem hér er staddur sem þegar hefði verið vísað úr landi en neitaði meðal annars að fara í PCR-próf.
„Eitt af ógeðfelldari atvikum í íslenskri útlendingapólitík“
Ýmsir hafa fordæmt þessi orð dómsmálaráðherra, meðal annars þingmaður Pírata, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, sem andmælti ráðherranum í Vikulokunum á Rás 1 helgina eftir. „Vegna þess að ég er að horfa í algjörri forundran á það hvernig dómsmálaráðherra Íslands leyfir sér, og ég myndi eiginlega kalla þetta eitt af ógeðfelldari atvikum í íslenskri útlendingapólitík sem ég hef séð,“ sagði hún.
„Hann tekur til máls undir því hvort að við eigum ekki að taka á móti úkraínsku flóttafólki og hendir fyrir sér að það sé hópur af fólki hérna sem lætur ekki brottvísa sér á götuna og guð og gaddinn til Grikklands ef það kemst hjá því og hann beitir þeim gegn fólkinu í Úkraínu og gerir þá einhvern veginn að óvinum þess að við getum aðstoðað fólk í Úkraínu,“ sagði Þórhildur Sunna.
Spurði hvort línur yrðu lagðar varðandi fjárstuðning við hælisleitendur
Sigmundur Davíð er aftur á móti sammála dómsmálaráðherranum og sagði á þingi í dag að mikilvægt væri að hefja „loks umræðu um þetta“.
„Mér þótti þó heldur halla undan fæti í viðtali við hæstvirts ráðherra á Bylgjunni í morgun þar sem hann virtist fyrst og fremst vera að bíða eftir leiðsögn frá stjórnkerfinu um hver væru næstu skref. Hæstvirtur ráðherra nefndi þó að í síðustu viku hefði Útlendingastofnun tekið á leigu um 200 hótelherbergi fyrir hælisleitendur og þau væru nú öll full og útlit fyrir að tekin yrðu á leigu 200 í viðbót sem myndu fyllast fljótt. Við heyrðum í fréttum að í febrúarmánuði hefði verið mesti fjöldi hælisumsókna sem hefur verið hér í allmörg ár, sem er auðvitað afleiðing af þeirri stefnu sem hefur verið rekin hér. Og þetta er áður en við bregðumst við stöðunni í Úkraínu,“ sagði Sigmundur Davíð.
Spurði hann Bjarna hvort von væri til þess að ríkisstjórnin myndi „loksins taka sér tak í þessum málum“ og að línur yrðu lagðar varðandi fjárstuðning við hælisleitendur. Einnig hvort vænta mætti þess að Ísland myndi styðja við löndin næst Úkraínu eins og Pólland, sem hefði nú þegar tekið við milljón flóttamönnum. Þannig vill þingmaðurinn styðja við þau lönd sérstaklega þannig að þau verði betur í stakk búin til að taka við flóttafólki samhliða því sem Íslendingar taka á móti fólki hér á landi.
„Óásættanlegt“ að fólk neiti að fara í sýnatöku
Bjarni svaraði og sagði að í mörg horn væri að líta í málefnum flóttamanna, hælisleitenda og í útlendingalöggjöfinni í víðara samhengi.
„Fyrst vil ég nefna það í þessari umræðu að það er mjög miður að Alþingi skuli ekki hafa afgreitt frumvörp, þrátt fyrir að dómsmálaráðherra hafi ítrekað lagt þau fram hér á þinginu, um að laga þau atriði sem háttvirtur þingmaður vísar meðal annars til hérna, sem hafa gert íslenska hælisleitendakerfið nokkuð frábrugðið því sem gildir víða annars staðar á því svæði þar sem Dyflinnarreglugerðin hefur verið virk. Hérna er um að ræða nokkur viðkvæm atriði sem ég veit að ráðherrann ætlar að leggja til að við reynum einu sinni enn að breyta með því að koma með frumvarp um það efni aftur inn í þingið.
Síðan aðeins um þá stöðu sem er komin upp núna. Það er að mínu áliti algerlega óásættanlegt að við séum hér með nokkur hundruð manns á Íslandi sem hafa fengið efnislega meðferð sem hefur lokið með því að viðkomandi einstaklingar eiga ekki rétt á því að fá stöðu hælisleitenda á Íslandi, fá sem sagt ekki alþjóðlega vernd, en fara ekki úr landi vegna þess að þeir neita að fara í sýnatöku, sem er forsenda fyrir því að við getum þeim komið heim aftur til þess lands sem þeir höfðu síðast viðkomu í og hafa vernd hjá. Það að við náum ekki að höggva á þennan hnút kostar íslenska skattgreiðendur rúman milljarð á ári. 1 milljarður fer í það að halda uppi fólki sem við höfum afgreitt erindi frá með neitun. Þetta er dæmi um atriði sem við hljótum að sammælast um að laga þegar frumvarp ráðherrans kemur hingað inn í þingið,“ sagði ráðherrann.
Verðum að vera í stakk búin að taka á móti fólki frá Úkraínu
Sigmundur Davíð sagðist í framhaldinu geta tekið undir margt í svari ráðherrans. Hann sagði það mikilvægt að frumvarp dómsmálaráðherra kláraðist þó að það væri „kannski ekki eins víðtækt til að taka á þessum vanda eins og tilefni er til“.
„En þótt ég sé ánægður að heyra viðbrögð hæstvirts ráðherra þá velti ég áfram fyrir mér: Má vænta einhverra aðgerða í samræmi við orð hæstv. ráðherra? Því að þessi ríkisstjórn hefur á sama tíma hún hefur ekki náð að koma í gegn því frumvarpi sem boðað hefur verið frá hæstvirtum dómsmálaráðherra, í þriðja skipti að ég held, lagt fram frumvarp sem gengur í þveröfuga átt og auglýsir Ísland sem áfangastað fyrir þá sem selja ferðir til flóttamanna. Nú þegar staðan er sú sem hún er í Úkraínu þá verðum við að vera í stakk búin til að taka við fólki á þeim forsendum sem lagt var upp með eftir seinni heimsstyrjöldina þegar flóttamannasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var gerður. En við þurfum líka að styðja við löndin, Pólland og önnur lönd sem eru næst Úkraínu,“ sagði hann í lok fyrirspurnar sinnar.
Flóttafólk frá Úkraínu nokkurn veginn sjálfkrafa samþykkt
Bjarni kom aftur í pontu og sagðist taka undir að það væri góð nálgun að hugsa það þannig: „Hvað getum við gert til þess að standa með þeim sem helst finna fyrir komu flóttafólks frá Úkraínu til sín? Hér er Pólland nefnt sérstaklega. Ég held samt sem áður að akkúrat þessa dagana þurfum við að spyrja okkur að því hvernig okkar eigið kerfi er undir það búið að taka við stórauknum fjölda flóttafólks, sérstaklega í ljósi þess að nú hefur þessi 44. gr. laganna verið virkjuð í fyrsta sinn sem þýðir efnislega að það þarf ekki að fara fram efnisleg meðferð beiðnanna heldur eru þeir sem eru flóttamenn frá Úkraínu nokkurn veginn sjálfkrafa samþykktir.
Við þurfum að spyrja okkur spurninga sem tengjast atvinnuleyfunum, sem eru ein áherslubreyting sem við í þessari ríkisstjórn höfum viljað beita okkur fyrir og ég hygg að verði sérstaklega tekið fyrir í frumvarpi ráðherrans. Þannig að áður en við förum að spyrja okkur: Hvað getum við gert í Póllandi? þá held ég að við verðum að spyrja okkur: Hvað getum við gert hér og nú í okkar eigin kerfi?“