Gas hefur verið fyrirferðarmikið í umræðunni upp á síðkastið í tengslum við refsiaðgerðir sem Rússar hafa verið beittir vegna innrásar rússneska hersins í Úkraínu. Um helmingur alls gass sem notaður er innan ESB er unninn úr rússneskri jörð. Þannig var 45 prósent alls innflutts gass til Evrópusambandsríkja á síðasta ári frá Rússlandi.
Evrópusambandið er meðal þeirra sem hafa beitt Rússa hörðum refsiaðgerðum og á föstudag, þegar 100 dagar voru liðnir frá upphafi innrásarinnar í Úkraínu, rók sjötti samningur aðildarríkja ESB um viðskiptaþvinganir gegn Rússum gildi.
Samkomulag náðist um að draga úr olíuinnflutningi til Evrópu frá Rússlandi um 90 prósent fyrir lok þessa árs. Þá snúa refsiaðgerðirnar einnig að bönkum og háttsettum embættismönnum innan rússneska hersins. Aðildarríkin hafa einnig unnið að samkomulagi að draga úr nauðsyn þess að kaupa rússneskt gas en samkomulag um bann á innflutningi á gasi frá Rússlandi tókst ekki að þessu sinni. Bandaríkin hafa hins vegar bannað allan innflutning á gasi frá Rússlandi.
Svíþjóð, Danmörk, Noregur og Holland
Gasnotkun getur ekki talist mikil á Íslandi en hvað sem refsiaðgerðum líður um bann á gasinnflutningi mun það ekki hafa áhrif hér á landi þar sem enginn innflutningur er á á gasi til Íslands frá Rússlandi.
Síðustu fimm ár hefur innflutningur á gasi verið á bilinu 2.700 til 3.200 tonn árlega, mest árið 2019. Í stóra samhenginu er innflutningurinn agnarsmár. Rússland, sem er sem fyrr segir stærsta gasútflutningsríki heims, flutti til að mynda út rúmlega 197,2 milljarða rúmmetra af gasi árið 2020, sem nemur rúmlega 69 milljörðum tonna.
Tekst að draga úr gasinnflutningi fyrst samkomulag náðist um olíu frá Rússlandi?
Eins og fyrr segir hafa refsiaðgerðir gagnvart Rússum ekki náð til gass, að minnsta kosti ekki enn sem komið er. Í síðasta mánuði gaf framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins út viðmiðunarreglur um hvernig greiða megi fyrir rússneskt gas. Reglurnar voru settar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir stórfelldan orkuskort í Evrópu.
Vladimír Pútín Rússlandsforseta hefur krafist þess að kaupendur frá „óvinveittum löndum“ borgi fyrir gas í rúblum. Að öðrum kosti verði skrúfað fyrir. Og það hefur nú verið gert.
Rússar skrúfuðu fyrir gas til Póllands í apríl. Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, segir Evrópisambandið vera að láta undan kúgunum Pútíns Auk Póllands hafa stjórnvöld í Búlgaríu, Hollandi og Finnlandi neitað að greiða fyrir gas frá Rússlandi í rúblum og því hefur verið skrúfað fyrir gasið til þessara ríkja.
Þó refsiaðgerðir nái ekki enn til gass hefur stríðið í Úkraínu samt sem áður haft áhrif á rússneska ríkisfyrirtækið Gazprom, sem hefur á fyrri helmingi þessa árs, frá janúar til maí, selt um fjórðungi minna af jarðgasi til annarra ríkja en þeirra sem tilheyrðu Sovétríkjunum. Þannig seldi Gazprom 61 milljarð rúmmetra af gasi til ríkja sem voru ekki hluti af Sovétríkjunum og nemur samdrátturinn 27,6 prósentum. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir hins vegar að útflutningur til Kína, sem fer fram í gegnum Síberíugasleiðsluna, hafi aukist, en ekki hverstu mikið.
Margir hafa sagt að alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gegn Rússum muni ekki bíta að ráði vegna þess hversu Evrópusambandið sem og fleiri ríki utan þess eru háð rússnesku gasi. Öll þessi orkuviðskipti við Rússa, sem ekki er hægt að hverfa frá í einu vetfangi, hafa verulega dregið úr áhrifum viðskiptaþvingana. Rússneska ríkið fær milljónir á milljónir ofan í sinn kassa daglega vegna orkuviðskipta við Vesturlönd.
Það er hins vegar spurning að nú, þegar aðildarríki ESB hafa samið um að draga úr olíuinnflutningi til Evrópu frá Rússlandi um 90 prósent fyrir lok þessa árs, hvort gasið sé næst?