Dróna, sem starfsmenn Hvals hf. hirtu af dagskrárgerðarmönnum svissneska ríkisfjölmiðilsins SRG SSR við hvalstöðina í Hvalfirði í síðustu viku, var skilað til lögreglu um helgina og lögregla kom honum í hendur Svisslendinganna, sem héldu af landi brott á sunnudag.
Þetta staðfestir Ásmundur Kristinn Ásmundsson hjá lögreglunni á Akranesi í samtali við Kjarnann, en hann segir skýrslutökur hafa farið fram í málinu, sem sé áfram til skoðunar hjá lögreglu enda gengu kærur á báða bóga – Hvalur hf. kærði lágflug á drónanum yfir hvalstöðinni en dagskrárgerðarteymið frá Sviss kærði stuld á dróna.
Ásmundur segir að lögregla hafi verið reiðubúin til þess að ráðast í húsleitaraðgerð í hvalstöðinni til þess að hafa uppi á dróna Svisslendinganna, en til þess hafi ekki þurft að koma.
Hann segir drónaflug vera „viðvarandi vandamál“ uppi í Hvalfirði og að lögregla hafi oftar en einu sinni fengið kvartanir vegna lágflugs dróna þar.
Reglur um drónaflug yfir athafnasvæðum eins og því sem Hvalur hf. hefur til umráða í Hvalfirðinum eru þær að það er almennt bannað að fara nær byggingum en 150 metra, nema með leyfi umráðanda, sem Svisslendingarnir hafa án efa ekki fengið hjá forsvarsmanni Hvals hf.
Raunar segir Ásmundur að drónaflug hafi verið vandamál víðar. Hann segir að lögreglu berist stundum tilkynningar um óviðeigandi drónaflug, jafnvel í sumarbústaðahverfum í Borgarfirðinum, þar sem fólk sem reynir að njóta sín í heitum pottum hefur þurft að láta lögreglu af flygildum sem sveima yfir þeim.