Svartar. Gráar. Brúnar. Mjallahvítar. Sumar svartar með hvítum depli á bringunni. Stundum tvær saman. Einstaka sinnum þrjár. Flestar þó einar á hoppi og skoppi. Ýmist kafloðnar eða með snöggan og glansandi feld.
Í Öskjuhlíð í Reykjavík hafa kanínur verið nokkuð áberandi frá því á síðustu öld. Þær eru villtar og hálfvilltar, afkomendur gæludýra sem sleppt var þar lausum fyrir einhverjum árum og áratugum. Nokkrir tugir kanína hafa líklega alla jafna haldið sig í skóginum sem orðinn er nokkuð þéttur og þroskaður enda hófst þar skógrækt um miðja síðustu öld.
En nú eru þær horfnar. Litlu loðboltarnir með blikið í dökkum augunum sem hægt var að koma auga á í nánast hverri gönguferð um skógarstígana, eru hvergi sjáanlegir.
Eða það er að minnsta kosti reynsla blaðamannsins sem þetta skrifar. Blaðamanns sem gengið hefur klukkustundum saman um Öskjuhlíðina síðustu tvo áratugina og þekkir marga þá staði þar sem líklegt er að sjá kanínur. Þær eiga það til að sitja grafkyrrar þegar þær verða varar við mannaferðir. En snúa sér svo til skógar með þessum einkennandi rassaskvettum sínum og fela sig.
Eftir marga leiðangra um Öskjuhlíðina síðustu vikur ákvað blaðamaður að spyrjast fyrir. Hvað hefur orðið um kanínurnar?
Engar aðgerðir til fækkunar
„Við höfum ekki farið í neinar aðgerðir hvað varðar kanínur í Öskjuhlíð en höfum heyrt að þær séu ekki mjög margar þessa dagana,” segir Þorkell Heiðarsson, deildarstjóri Dýraþjónustu Reykjavíkurborgar. Frekari staðfestingu á grun blaðamanns um fækkun kanínanna á svæðinu hefur hann ekki. Hann rifjar hins vegar upp skæða veirusýkingu sem kom upp í kanínustofninum í Elliðaárdal fyrir nokkrum árum. Sú sýking dró mörg dýranna til dauða. Stofninn er að ná sér á strik og telur innan við 200 dýr í augnablikinu, segir Þorkell. „Annars erum við að undirbúa samstarfsverkefni með félögunum Dýrahjálp og Villikanínum til þess að bæði fylgjast með og stýra stofnstærð í Öskjuhlíð og í Elliðaárdal sem og tryggja velferð þeirra dýra sem þar eru.”
Dýraverndunarsamtökin Villikettir hafa verið í sambærilegu samstarfi við sveitarfélög. Eitt af því sem samtökin gera í starfi sinu er að fanga villta högna og láta gelda þá. Þeir fá svo að jafna sig af aðgerðinni en er að því loknu sleppt aftur. Aðferð sem þekkist víða um heim og hefur skilað góðum árangri við að stýra stofnstærðum. Sumum köttum sem finnast er komið fyrir á heimilum fólks, m.a. kettlingum sem fæðast úti. Mörg dæmi eru svo um að villikettirnir séu engir villikettir heldur heimiliskettir sem hafi villst af leið jafnvel fyrir fleiri árum síðan.
En aftur að kanínunum í Öskjuhlíð.
Samtökin Villikanínur hafa ekki fengið ábendingar um að kanínunum þar hafi fækkað. Þau hafa heldur ekki fengið ábendingar um að þeim hafi ekki fækkað. Málið er snúið því enginn fylgist nákvæmlega með stofninum þótt vonandi verði breyting þar á með fyrrgreindu samstarfi samtakanna og borgarinnar.
Talsmaður samtakanna, sem blaðamaður var í samskiptum við á Facebook, segir mögulegt að kanínurnar í Öskjuhlíð hafi fært sig um set. Séu ekki lengur á hinum þekktu kanínuslóðum. Það hafi frænkur þeirra í Elliðaárdalnum gert. Ónæði hvers konar getur skýrt slíka búferlaflutninga.
Og jú, vel getur verið að aukið áreiti í Öskjuhlíðinni síðustu misseri hafi orsakað þetta. Nýbyggingar hafa risið á áður óbyggðu svæði. Heilu blokkirnar hafa nú fyllst af fólki við rætur vesturhlíðanna. Þar er iðandi mannlíf, eins og stundum segir í fasteignaauglýsingunum. Það kann að heilla fólk en mjög ólíklega styggar kanínur.
Og talandi um fólk á iði. Hrópandi jafnvel. Í sumar var komið upp svokallaðri “zip-line”, aparólu eins og slík tæki eru stundum kölluð á íslensku, í Öskjuhlíðinni. Þetta er engin smá róla. Ferðalagið eftir línunni byrjar ofan á Perlunni og endar í skógarrjóðri neðan við hana. Gestir þjóta eftir línunni um 230 metra vegalengd á allt að 50 kílómetra hraða.
Þetta er hin mesta skemmtun sem fær adrenalín einhverra til að flæða um líkamann. En kanínum kann að blöskra lætin.
Í þriðja lagi, hvað aukið áreiti í Öskjuhlíð varðar, skal nefnt að breiðir og malbikaðir göngustígar hafa verið lagðir um svæðið síðustu tvö sumur. Þetta er „perlufestin“, kerfi uppbyggðra (og upplýstra) stíga sem eykur aðgengi allra (manna) að þessu vinsæla útivistarsvæði. Vinnuvélar hafa því verið að störfum með tilheyrandi hávaða vikum og mánuðum saman. Það er þó auðvitað tímabundið verkefni sem er að mestu lokið eftir því sem blaðamaður kemst næst.
(Myndbandið hér að ofan var tekið í Öskjuhlíð fyrir rúmu ári).
Allt eru þetta kenningar um hvað veldur hvarfi kanínanna. Þessar tvær svörtu sem nær alltaf mátti sjá á einum moldarstígnum í miðjum skóginum hafa ekki sést síðan í vor. Þessi mjallahvíta sem stundum sat í makindum á göngustígnum við Háskólann í Reykjavík ekki heldur. Svo er það þessi gráa sem átti sér greinilega fyrst og fremst samastað norðan við Perluna. Og loks sú brúna neðar í norðurhlíðinni. Tekið skal fram að við þessa rannsókn var hvorki stuðst við loftmyndir né hitamyndavélar. Aðeins tilviljanakennda skoðun í gönguferðum með tveimur tæplega fimmtíu ára gömlum augum. Að hafa séð það sem eitt sinn var og er þar ekki lengur.
En svo bar til tíðinda.
Þegar nýfallinn snjór huldi jörð einn morguninn á dögunum ákvað blaðamaður að fara í enn einn rannsóknarleiðangurinn. Vopnaður myndavél, spergilkáli og nokkrum íslenskum gulrótum.
Og viti menn (og kanínur). Á tveimur stöðum í Öskjuhlíðinni sáust spor í snjónum sem geta vart tilheyrt öðru dýri en einmitt kanínu. Löng og hlykkjótt slóð ítrekaðra „þríhyrninga“.
Það er þá að minnsta kosti ein kanína enn á svæðinu. Frekari ályktanir er erfitt að draga með jafn óvísindalegri rannsókn. Og þó. Spor sáust á tveimur stöðum. Með töluverðri vegalengd á milli. Það er því með nokkurri vissu hægt að fullyrða að þær séu tvær á hinum hefðbundnu kanínuslóðum Öskjuhlíðarinnar. „Gögnin“ styðja ekki aðra niðurstöðu að svo komnu máli.
Ef þú, ágæti lesandi, ferð reglulega um Öskjuhlíðina í hvaða erindagjörðum sem er, og hefur séð kanínur – eða einmitt alls ekki – þá getur þú lagt þín lóð á vogarskálar þessarar óformlegu dýralífsrannsóknar með því að senda frásagnir (og auðvitað myndir og myndskeið ef þú átt í fórum þínum) á netfangið sunna@kjarninn.is.
Rannsókninni er langt í frá lokið. Ef í ljós kemur að aðrir unnendur Öskjuhlíðar hafa séð í dúsklaga skottið á fjölda kanína undanfarið verður helst hægt að álykta eitt ofar öllu: Að blaðamaður þurfi ný gleraugu.