Hann er hálf tannlaus, talar spænsku og skellihlær í sjónvarpssal í óskilgreindum sjónvarpsþætti fyrir, að því er virðist, fáeinum árum. Við höfum öll hlegið með honum, hvort sem honum hafi verið brugðið í líki hönnuðar hjá Apple, stuðningsmanns ríkisstjórnarinnar eða andstæðings hennar.
En hver er þessi maður í raun og veru? Breska ríkissjónvarpið BBC hefur gefið vísbendingu og Kjarninn hefur fylgt henni og komist að raun um að hér er spænski grínistinn Juan Joya Borja á ferðinni og hann er alls ekki að tala um stjórnmál. Hann er þekktur á Spáni fyrir hlátur sinn og er kallaður „El Risitas“, sem kannski útleggst á íslensku sem „Fjörkálfurinn“.
Borja hefur síðan árið 2000 leikið í sjónvarpsþáttum og bíómyndum á spænsku. Um svipað leiti kom hann fyrst fram í spjallþættinum Ratones Coloraos, í umsjá spænska fjölmiðlamannsins Jesús Quintero, og hefur síðan verið fastagestur. Í umræddum þætti fær hann einmitt hláturskastið fræga. Hér að neðan má sjá Fjörkálfinn í öðru viðtali við Quintero og þar virðist einfaldlega allt mistakast hjá okkar manni. Það myndband er hins vegar ekki textað, en látbragðið og óhljóðin í Fjörkálfinum er engu að síður skemmtileg.
Myndbandinu af honum í hláturskastinu í spænsku sjónvarpi árið 2007, að segja sögu af mat sem hann setti í sjóinn, hefur farið eins og eldur í sinu undanfarna daga. Netverjar hafa keppst við að texta framsögu Fjörkálfsins og setja hlátur hans í samhengi við málefni líðandi stundar.
Hann hefur til dæmis gagnrýnt Vladimír Pútín fyrir framgöngu sína í Úkraínu, gert grín að uppþoti stjórnarandstöðunnar við bréfi Gunnars Braga Sveinssonar til Evrópusambandsins og sem starfsmaður Apple kemur hann fólki í skilning um hversu fáránlegt eina tengið á nýju MacBook-tölvunni sé. Síðastnefnda myndbandið hefur þegar fengið 4,5 milljón áhorf, aðeins viku eftir að því var hlaðið á YouTube.
En þó Fjörkálfurinn hafi fengið byr undir báða vængi síðustu daga þá var myndbandið fyrst notað af Bræðralagi múslima í Egyptalandi í fyrra til að hæðast að forseta landsins, Abdel Fattah el-Sisi, í kosningum. Og nú er hlátur Spánverjans orðið nærri jafn vinsælt „meme“ og myndbrotið úr Der Untergang þar sem Hitler áttar sig á því að stríðinu sé tapað. Síðast sást Hitler til dæmis bölva veðrinu í vetur en áður hefur Hitler verið æfareiður Rebeccu Black og svo reif han Icesave í sig á eftirminnilegan hátt í hruninu.
Hér að neðan má sjá upprunalega myndbandið og viðtalið við Fjörkálfinn, textað á ensku, og svo nokkrar afbakanir sem eru sprenghlægilegar.