Rúmlega fimm prósent af hlutafé Íslandsbanka verður í eigu erlendu fjárfestanna Capital World Investors og RWC Asset Management LLP, samkvæmt nýútgefinni útboðslýsingu bankans. Annar þeirra á stóran eignarhlut í tóbaks- og vopnaframleiðanda, á meðan hinn styðst við ráðgjöf fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Kjarninn tók saman nokkra punkta um eðli og stærð sjóðanna.
Langtímafjárfestir sem á í vopnaframleiðanda og tóbaksfyrirtæki
Sjóðurinn Capital World Investors hefur skuldbundið sig til að kaupa 77 milljónir hluta í Íslandsbanka, sem jafngildir 3,8 prósentum af útgefnum hlutum hans. Samkvæmt kynningarefni frá Capital Group, eiganda sjóðsins, einbeitir hann sér að langtímafjárfestingum til margra ára. Um það bil 10 prósent af fjárfestingum Capital Group eru í fjármálafyrirtæki.
Samkvæmt heimasíðunni Stockzoa er markaðsvirði sjóðsins 529 milljarðar Bandaríkjadala, eða um 64 billjónir íslenskra króna. Helstu eignir hans eru hlutabréf í rafbílaframleiðandanum Tesla og hugbúnaðarfyrirtækinu Microsoft, en hann á einnig stóran eignarhlut í tóbaksframleiðslufyrirtækinu Philip Morris International og vopnaframleiðandanum Lockheed Martin.
Með Rice sem ráðgjafa og stýra meira en landsframleiðsla Íslands
Sjóðurinn RWC Next Generation Emerging Markets Equity Fund, sem er í stýringu RWC Asset Management, hefur skuldbundið sig til að kaupa 30 milljónir hluta í Íslandsbanka, en það jafngildir einu og hálfu prósenti af öllum útgefnum hlutum hans.
Samkvæmt kynningarglærum um sjóðinn stýrir hann alls um 24,4 milljörðum Bandaríkjadala, eða tæplega 3 þúsund milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar nam landsframleiðsla Íslands 2,6 þúsund milljörðum króna í fyrra. Einn af ráðgjöfum sjóðsins er Condoleezza Rice, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Sjóðurinn setur Ísland í flokk verðandi nýmarkaðsríkja (e. Next Generation Emerging Markets), í hópi með Króatíu, Nígeríu, Víetnam, Bangladesh og Kazakhstan. Samkvæmt sjóðnum eru þessi lönd þróaðri en flestir vaxtamarkaðir (e. Frontier Markets), en þó minna þróuð en flestir nýmarkaðir, líkt og Mexíkó, Rússland, Taiwan og Suður-Kórea.
Samkvæmt RWC liggja vaxtarmöguleikar íslenska hagkerfisins bæði í ferðaþjónustu og framleiðslu á verslunarvöru. Að því leytinu til sé landið líkt Chile, Argentínu, og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
RWC býst við að gengi íslensku krónunnar muni haldast óbreytt út árið, en styrkjast um 7 prósent á næsta ári. Sjóðurinn gerir einnig ráð fyrir að hagvöxtur muni nema 3 prósentum hér á landi í ár og 5,5 prósentum á næsta ári.