Það sem af er ári hefur Hollendingum tekist að draga úr gasnotkun sinni um þriðjung. Það er mun meira en nágrönnunum í Þýskalandi hefur tekist að gera en þar í landi nam samdrátturinn engu að síður 14 prósentum á tímabilinu janúar til maí. Ítalir, svo dæmi sé tekið, eru mun verr settir og hafa aðeins náð að minnka notkun gass um tæplega 2 prósent.
Mörg Evrópuríki eru háð gasi og þar með Rússum því talið er að um helmingur af öllu gasi sem notaður er í álfunni komi þaðan. Er Rússar gerðu innrás í Úkraínu í febrúar var gripið til margskonar viðskiptaþvingana gegn þeim en rússneska gassins þurfti enn með. Stjórnvöld í Rússlandi svöruðu fyrir sig, heimtuðu greiðslur í rúblum fyrir gasið og fleira í þeim dúr. Fyrir tæpum tveimur vikum sögðust þau svo þurfa að stöðva gasflæðið til Evrópu til að sinna viðhaldi á helstu gasleiðslunni, Nord Stream 1. Gasnotkun er minni á sumrin en á veturna, enda gasið m.a. notað til að kynda hýbýli en sumarmánuðir eru hins vegar notaðir til forðasöfnunar.
Rússlenska gasið hóf aftur að streyma um Nord Stream 1 á fimmtudaginn. En hversu lengi – það er stóra spurningin.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hvatt aðildarríki ESB til að draga úr notkun jarðgass um sem nemur 15 prósentum fram til næsta vors. Aðildarríkjum er í sjálfsvald sett hvort þau fylgi þessum tilmælum enn sem komið er skerðingin gæti orðið lögfest ef Rússar stöðva flutning á jarðgasi í gegnum gasleiðsluna Nord Stream 1.
Hollendingum hefur það sem af er þessu ári tekist að ná þessu markmiði og gott betur. Þrennt hefur þar skipt mestu máli.
Í fyrsta lagi er það veðrið. Óvenju mildur vetur er að baki sem þýddi að minna gass var þörf. Í öðru lagi hefur verið fýrað upp í kolaverum að nýju og í þriðja lagi hefur tekist að draga úr gasnotkun almennt.
Þýski fjölmiðilinn Deutsche Welle (DW) hefur eftir hollenskum sérfræðingi í orkumálum að mildi veturinn og kolaverin hafi orsakað samtals 5-10 prósent af þeim samdrætti sem orðið hefur í gasnotkun síðustu mánuði. Langstærsta breytan sé minni notkun heimila og fyrirtækja.
Í apríl, nokkrum vikum eftir innrás Rússa í Úkraínu, hóf hollenska ríkisstjórnin mikla herferð sem miðaði að því að hvetja almenning sem og fyrirtæki til að draga úr orkunotkun. Slagorð herferðarinnar var „skrúfið niður í ofnunum“ og voru borgararnir hvattir til draga úr húshitun. Samhliða þessu voru fólk og fyrirtæki hvött til að einangra hús betur sem og að fjárfesta í orkusparandi búnaði.
Ekki lausn að brenna kolum
DW hefur svo eftir Ben McWilliams, þýskum sérfræðingi í orkumálum, að líklegt sé að önnur Evrópuríki fari að fyrirmynd Hollendinga. Sá segir að það að brenna kolum til raforkuframleiðslu í stað þess að nota gas sé einföld lausn í efnahagslegu tilliti en vissulega ekki fýsileg í umhverfislegu. Til að draga verulega úr orkunotkun fyrirtækja, m.a. verksmiðja, þurfi fleira að koma til en betri einangrun húsnæðis. Það muni þýða samdrátt í framleiðslu. Sem aftur gæti svo haft neikvæðar efnahagslegar afleiðingar.
Ef draga á verulega úr notkun gass í Evrópu þarf að koma til aðgerða og þá þurfa stjórnmálamenn að vera „algjörlega hreinskilnir við fólk,“ hefur DW eftir McWilliams. Þeir þurfa að segja það ekki seinna en strax að í vetur skipti öllu að spara hverju einustu sameind af gasi, „að það muni bjarga störfum og til lengri tíma litið bjarga efnahagnum“.
Holland er vissulega ekki eina Evrópuríkið sem lagt hefur upp í átak þar sem fólk er hvatt að spara gas. Það hefur einnig verið gert t.d. í Belgíu og Þýskalandi þótt árangurinn hafi ekki verið jafn mikill.
Það er auðvitað ekki hægt að fullyrða að herferðir sem þessar, einar og sér, hafi afgerandi áhrif. Orkuverð hefur rokið upp úr öllu valdi og mun halda áfram að gera það næstu vikur og mánuði ef fram heldur sem horfir. Það vekur fólk til vitundar og ef til vill verður það við þessar aðstæður næmara á herferðir á borð við „skrúfið niður í ofnunum“.
Einnig hafa sérfræðingar bent á að eftir heimsfaraldurinn þar sem áríðandi var að standa saman hafi vakið fólk til umhugsunar um einmitt það; að standa saman. Að standa saman í því að draga úr orkunotkun kann því að vera sjálfsagðara í hugum fólks núna en áður.
En fleira en orkusparnaður heimila þarf að koma til. Svo mikið er víst. Og svo virðist sem aukin sátt sé að skapast um að brenna meira af kolum en síðustu misseri sem og að fresta því að slökkva á kjarnorkuverum en í Þýskalandi stóð til að síðasta verið myndi hætta starfsemi um næstu áramót.
Í ljósi þess að áhrif loftslagsbreytinga af mannavöldum eru þegar orðin sýnileg, m.a. í þeirri hitabylgju sem gengið hefur yfir Evrópu síðustu daga, þá er orðið tímabært að huga mun betur að því í hvað orka sem framleidd er úr auðlindum jarðar fer.
Löngu tímabært.