Þverpólitískur hópur tíu íslenskra þingmanna hefur sent sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi yfirlýsingu þar sem skorað er á bandarísk stjórnvöld að fella niður ákæru á hendur rannsóknarblaðamanninum og stofnanda Wikileaks, Julian Assange. Samkvæmt þingmannahópnum gæti hann, verði hann fundinn sekur, verið dæmdur til 175 ára fangelsisvistar fyrir störf sín en honum hefur nú verið haldið í öryggisfangelsi í Bretlandi í yfir tvö ár.
Að hópnum standa Helga Vala Helgadóttir og Guðmundur Andri Thorsson, þingmenn Samfylkingarinnar, Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG, Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson og Andrés Ingi Jónsson, þingmenn Pírata, Hanna Katrín Friðriksson og Jón Steindór Valdimarsson, þingmenn Viðreisnar og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks skoraði á íslenska þingmenn fyrir viku síðan að láta í sér heyra varðandi mál Assange en þingmenn víðsvegar að úr heiminum hafa látið sig málið varða og mótmælt fangelsun hans. Síðan þá hefur hæstiréttur í London veitt Bandaríkjastjórn leyfi til að áfrýja að hluta til þeim dómi sem féll þann 4. janúar síðastliðinn að Assange skuli ekki framseldur til Bandaríkjanna vegna heilsufarsástæðna.
Yfirlýsing íslensku þingmannanna:
Við, undirritaðir, þingmenn á Íslandi af öllu pólitíska litrófinu, hvetjum Bandaríkjastjórn til að falla frá ákæru á hendur Julians Assange, stofnanda Wikileaks, og draga til baka framsalsbeiðni gegn honum í Bretlandi.
Ákærurnar um „njósnir“ á hendur Assange eru tilraun til að glæpavæða rannsóknarblaðamennsku og skapar það hættulegt fordæmi gegn fjölmiðlafrelsi um heim allan.
Sérstakur framsögumaður Sameinuðu þjóðanna um pyntingar, Nils Melzer, hefur sagt að Assange hafi verið „afmennskaður með einangrun, háði og skömm“ og sviptur grundvallarmannréttindum sínum. Það sé refsingin fyrir að afhjúpa stríðsglæpi og pyntingar sem framdar voru af bandarísku herliði í Írakstríðinu.
Nýlegar uppljóstranir, þar sem lykilvitni í málinu viðurkennir að hafa skáldað ásakanir á hendur Assange, ættu að marka endalok árása á margverðlaunaðan blaðamann. Við hvetjum leiðtoga, ríkisstjórnir og þingmenn um heim allan til að hefja upp raust sína og styðja við fjölmiðlafrelsi, réttarríkið og rétt almennings til þekkingar.
Helga Vala Helgadóttir, Samfylkingin
Guðmundur Andri Thorsson, Samfylkingin
Ari Trausti Guðmundsson, Vinstri græn
Halldóra Mogensen, Píratar
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Píratar
Björn Leví Gunnarsson, Píratar
Andrés Ingi Jónsson, Píratar
Hanna Katrín Friðriksson, Viðreisn
Jón Steindór Valdimarsson, Viðreisn
Inga Sæland, Flokkur fólksins