Ríkisstjórn Joes Biden Bandaríkjaforseta tilkynnti á dögunum áform sín um að afskrifa hluta námslána meirihluta Bandaríkjamanna, en um er að ræða efningu á einu helsta kosningaloforði forsetans. Um er að ræða endurskipulagningu á lánagreiðslunum almennt sem á að gagnast þeim sem eiga erfiðast með að greiða námslán sín og felst stærsta aðgerðin í því að afskrifa 10 þúsund Bandaríkjadali af námslánum allra sem þéna minna en 125 þúsund dali á ári. Til að setja upphæðina í samhengi hljóðar meðalnámslán fólks sem lokið hefur námi í Bandaríkjunum upp á 25 þúsund dali.
Fjölmargir hafa fagnað aðgerðum Biden í þessum efnum þó mörgu samflokksfólki hans þyki betur mega ef duga skal. Tilkynnt var um aðgerðirnar nú um þremur mánuðum áður en þingkosningar fara fram í Bandaríkjunum og þykja þær líklegar til þess að auka við stuðning Demókrataflokksins. Þingmenn Repúblikanaflokksins hafa reynt að klóra í bakkann með því að gagnrýna aðgerðirnar, og nota þá meðal annars þá röksemdafærslu að ósanngjarnt sé að skattpeningar verkafólks séu notaðir til þess að greiða upp skuldir menntaðra.
Hið minnsta sex þingmenn úr röðum Repúblikanaflokksins hafa verið háværir í gagnrýni sinni á samfélagsmiðlum og í sjónvarpi, en Hvíta húsið hefur vakið mikla athygli fyrir að benda á ákveðna hræsni í gagnrýni þingmannanna á Twitter-aðgangi sínum. Um er að ræða þingmennina Marjorie Taylor Greene, Vern Buchanan, Mike Kelly, Kevin Hern, Matt Gaetz og Markwayne Mullin, en það sem þau eiga sameiginlegt er að hafa fengið afskrifað hundruð þúsunda dollara, nú eða milljónir, af lánum sem þau fengu frá bandaríska ríkinu í kórónuveirufaraldrinum.
Um var að ræða svokölluð PPP (Paycheck Protection Program) lán sem komið var á fót í valdatíð Donalds Trump og áttu að hjálpa ákveðnum fyrirtækjum og sjálfstætt starfandi einstaklingum að halda í við launakostnað og var ætlað að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Þeim sem sögðu ekki upp starfsfólki og lækkuðu ekki laun þess bauðst svo að fá lánin afskrifuð að hluta til eða öllu leyti. Úrræðið hefur hlotið mikla gagnrýni og er ekki talað hafa skilað tilætluðum árangri, auk þess sem spurningarmerki hefur verið sett við það hvers vegna stjórnmálamenn gátu tekið út slíkt lán.
PPP verkefnið kostaði 953 milljarða Bandaríkjadala, en til samanburðar hefur Hvíta húsið tilkynnt að áætlanir um að afskrifa námslán muni kosta 24 milljarða á ári. Fjölmargir hafa fagnað því hvernig Hvíta húsið brást við gagnrýni þingmannanna og telja ljóst að Biden hafi ráðið til sín ungt og réttsýnt fólk til að sinna samfélagsmiðlum sínum.
Congressman Vern Buchanan had over $2.3 million in PPP loans forgiven.https://t.co/bXpwJlWRm4
— The White House (@WhiteHouse) August 25, 2022