Fimm konur hafa leitað til Sameykis stéttarfélags eftir að þeim var sagt upp hjá Vinnumálastofnun í lok síðasta mánaðar. Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis segir í samtali við Kjarnann að uppsagnirnar hafi verið þeim verulegt áfall. Uppsagnirnar hafi verið óvæntar og án nokkurs aðdraganda og ekki verði annað séð en framkvæmdin sé stjórnunarlegt fúsk.
Ekki hafi verið farið eftir leiðbeiningum til stjórnenda um uppsagnir ríkisstarfsmanna vegna rekstrarlegra ástæðna heldur „vaðið í starfsmennina“ án nokkurs aðdraganda með órökstuddum fullyrðingum um að ástæða uppsagnanna væri hagræðing í rekstri og uppsagnir nauðsynlegar til að mæta aðhaldskröfu.
Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar segir í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans, þar sem hún er spurð hvort rétt hafi verið staðið að þessum uppsögnum og öllum ferlum fylgt, að hún sem forstjóri sé bundin þagnarskyldu um allt sem lýtur að málum einstakra starfsmanna hjá stofnuninni og sé henni því ómögulegt að svara þeim spurningum sem blaðamaður setur fram í fyrirspurninni.
Hún var einnig spurð hvort farið hefði verið eftir starfsreglum stjórnenda stofnana sem fjármálaráðuneytið gefur út og hvort uppsagnirnar færu á mis við jafnréttislög, eins og konurnar halda fram.
„Almennt vil ég þó taka fram að hjá Vinnumálastofnun er þess gætt í hvívetna að farið sé að þeim lögum og reglum sem gilda þegar kemur að starfslokum starfsmanna stofnunarinnar auk þess sem reynt er að sýna eins mikla nærgætni og unnt er við erfiðar aðstæður,“ segir hún jafnframt.
Komið fram við þær „eins og sakamenn“
Flestar kvennanna mættu á fund Sameykis í fyrradag og greindu frá upplifun sinni af uppsögnunum og framgöngu stjórnenda við að „bókstaflega henda þeim út“. Þórarinn segir að ekki verði annað séð en að allur málatilbúningurinn um einhverja óútskýrða aðhaldskröfu sé hreinn uppspuni. Á sama tíma og gengið sé fram af fullkomnu virðingarleysi við umræddar konur, hafi aðrir starfsmenn verið fastráðnir – jafnvel starfsmenn sem hafi verið lausráðnir áður.
Því sé ekkert sem bendir til þess að um hagræðingar- og aðhaldskröfu sé að ræða vegna uppsagnanna sem er sögð ástæðan í uppsagnarbréfi. Enda sé ekki einu orði minnst á það í uppsagnarbréfi hvaðan sú krafa sé komin eða hvernig stofnuninni var gert að fylgja henni.
Þórarinn segir að konunum hafi verið gert skylt að yfirgefa vinnustaðinn samstundis og reynt að sjá til þess að þær yfirgæfu vinnustað sinn til margra ára til þess að koma í veg fyrir að þær hittu starfsfélaga sína. Óskum um að ljúka vinnudeginum hafi verið hafnað og öllum aðgangi þeirra að tölvukerfum, póstforritum og innra samskiptaneti sem starfi þeirra tengdist hafi verið lokað um leið og þeim var vísað út.
Konurnar lýsa þessari framkomu þannig að komið hafi verið fram við þær eins og sakamenn. Yfirmenn hafi lokað sig af áður en til uppsagnanna kom, viðmót þeirra hafi verið kuldalegt og þeim sýnd vanvirðing. Tvær kvennanna segja jafnframt frá því að þær hafi verið í nokkurra daga veikindum vegna flensufaraldursins, þegar tveir yfirmenn þeirra hafi komið saman á sitthvort heimili þeirra til að afhenda þeim uppsagnarbréfið þegar þær voru heima vegna veikinda.
Upplifði einelti frá yfirmanni um langt skeið
Þórarinn segir að konurnar hafi lýst afar sérstakri framkomu yfirmanna sem í einhverjum tilfellum verði ekki betur séð en að einkennst hafi af hroka og geðþóttaákvörðunum. Þá segir ein kvennanna að hún hafi upplifað einelti frá yfirmanni sínum um langt skeið og orðið kvíðin fyrir því að mæta honum. Nokkrar kvennanna íhugi að kæra stjórnandann vegna eineltis á vinnustað.
Fram kemur hjá Þórarni að konunum sem sagt var upp störfum hafi langan starfsaldur hjá Vinnumálastofnun. Hann segir að stofnunin hafi ekki virt leiðbeiningar fjármálaráðuneytisins um hvernig standa beri að uppsögnum ríkisstarfsmanna en þar segir meðal annars að slík ákvörðun verði að byggjast á lögum og málefnalegum sjónarmiðum.
Framkvæmd uppsagna hefur mikil áhrif á viðhorf starfsmanna og almennings til stofnunar
Í leiðbeiningum fjármálaráðuneytisins segir að uppsagnir starfsmanna séu alltaf erfiðar, sérstaklega fyrir starfsmenn en einnig fyrir stjórnendur. Þegar nauðsynlegt er að segja upp starfsmönnum reyni fyrir alvöru á hæfni stjórnenda og starfsmannastefnu stofnunar. „Framkvæmd uppsagna hefur mikil áhrif á viðhorf starfsmanna og almennings til stofnunar, einnig löngu eftir að uppsagnir eru um garð gengnar. Því er mikilvægt að framkvæmdin sé vandlega undirbúin, hún sé fagleg, að farið sér eftir lögum og reglum og að virðing sé borin fyrir hlutaðeigandi aðilum.“
Þórarinn segir að Vinnumálastofnun hafi gert fastráðningarsamning við þrjá lausráðna starfsmenn stofnunarinnar áður en til uppsagna starfsmannanna tveggja kom. Þórarinn telur í því ljósi að uppsagnirnar séu því ekki vegna kröfu fjármálaráðuneytisins um hagræðingu hjá stofnuninni.
Í uppsagnarbréfi stendur aftur á móti að ástæður uppsagnanna séu vegna hagræðingar í starfsemi og séu nauðsynlegar til að mæta aðhaldskröfum. Samkvæmt Þórarni tilgreindi Vinnumálastofnun konunum ekki hvaða hagræðingakröfur fjármálaráðuneytisins væri um að ræða eða hvernig mæta ætti hagræðingarverkefninu með aðhaldi og endurskipulagningu í rekstrarlegum útgjöldum.
Framkoma stjórnenda ofbeldiskennd, ógnandi og niðurlægjandi
Þórarinn telur að stofnunin þurfi jafnframt að svara því hvort uppsagnirnar fari á mis við jafnréttislög því um er að ræða uppsagnir kvenna. Hann segir að stjórnendur Vinnumálastofnunar hafi heldur ekki virt leiðbeiningar fjármálaráðuneytisins um uppsagnarviðtöl þar sem kemur skýrt fram að boða þurfi starfsmann í viðtal vegna uppsagnarinnar en stjórnendurnir hafi forðast að eiga samtal vegna þeirra. Í leiðbeiningunum segir:
„Hugsanlegt er að einhverjir stjórnendur bregðist við ástandinu með því að fela sig inni á skrifstofum sínum á bak við luktar dyr undir því yfirskini að hafa mikið að gera. Slík hegðun sýnir takmarkaða virðingu þeirra fyrir starfsfólki sínu sem hefur þörf fyrir sýnilegan stjórnanda sem kemur fram af myndugleika og skilningi á viðbrögðum starfsfólks.“
Þórarinn greinir frá því að stjórnendur Vinnumálastofnunar hafi forðast að eiga samtal vegna uppsagna kvennanna, kallað viðkomandi inn á skrifstofu, afhent uppsagnarbréf og óskað eftir því að starfsmennirnir yfirgæfu vinnustaðinn án tafar án þess að koma við á starfsstöðvum sínum eða kveðja samstarfsfélaga sína og sagt að starfskrafta þeirri væri ekki óskað á uppsagnartíma. Að ekki sé minnst á að sækja að starfsfólki sínu veiku í flensu, „þrammandi inn á gafl á þeirra eigin heimili til að henda uppsögnum í viðkomandi“. Uppsagnirnar hafi verið óvæntar og framkoma stjórnendanna hafi verið ofbeldiskennd, ógnandi og niðurlægjandi í garð þeirra.
„Þessi framkoma er algjörlega forkastanleg,“ segir Þórarinn að lokum og segir að Sameyki muni beita sér af mikilli ákveðni í að sækja rétt kvennanna.