„Tímalínan er væntanlega stærri. Þetta er umtalsvert verkefni.“ Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, í útvarpsþættinum Sprengisandi í gærmorgun þegar hann var spurður hvort framkvæmdum við þjóðarhöll í innanhúsíþróttum myndi ljúka árið 2025. Einungis er gert ráð fyrir að ríkissjóður setji 100 milljónir krónur í verkefnið á næsta ári, sem eru fjármunir sem munu nýtast í undirbúning verkefnis.
Einungis fjórir mánuðir eru síðan að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu viljayfirlýsingu um byggingu þjóðarhallarinnar. Samkvæmt henni var stefnt að því að framkvæmdum myndi ljúka árið 2025 og kostnaðarskipting milli ríkis og borgar átti að taka mið af nýtingu mannvirkisins.
Þegar Kristján Kristjánsson, þáttastjórnandi Sprengisands, spurði Sigurð Inga af hverju það hefði verið lofað svona löguðu í maí þegar það væri ekki hægt að standa við það nokkrum mánuðum síðar, sagði hann að menn væri „auðvitað að vonast til að hlutirnir gangi eins hratt og hægt er“.
Draga úr framkvæmdum en samt eiga 35 þúsund íbúðir að rísa
Í maí hafi sú staða enn verið uppi að búist hefði verið við að hið opinbera þyrfti að ráðast í mikla skuldsetta fjárfestingu til að koma samfélaginu efnahagslega af stað. Svo hefði hið gagnstæða gerst. Allt hafi farið á fullt, hagvöxtur yfir ákveðið tímabil hefði verið tíu prósent og verðbólgan farið í þær sömu hæðir. Staðan nú væri þannig að það vantaði mannafla til að byggja. „Þá verður hið opinbera að draga að sér hendurnar. Til þess að búa ekki til þenslu. Þetta er bara skynsemi og stundum ráðum við ekki við alla þætti. Þetta er einn þeirra þátta. Þá verðum við að sætta okkur við það, jafnvel þó að við höfum lofað að einhver tiltekin mannvirki væru tilbúin á einhverjum tilteknum tíma.“
Á sama tíma og tilkynnt er að dregið verði úr opinberum framkvæmdum er stefnt að því að byggja 35 þúsund íbúðir á Íslandi á næstu tíu árum á grundvelli rammasamnings milli ríkis og sveitarfélaga. Aðspurður um hvernig þau áform, sem eru þensluvaldandi, rími við það að draga úr þenslu með því að fresta opinberum framkvæmdum viðurkenndi Sigurður Ingi að það yrði „talsverð áskorun“.
Leyst með viljayfirlýsingu korteri fyrir kosningar
Þegar viljayfirlýsing um þjóðarhöll í innanhúsíþróttum var undirrituð í maí voru átta dagar í sveitarstjórnarkosningar. Málið hafði verið hitamál í Reykjavík í aðdraganda þeirra, sérstaklega þar sem það var beintengt við inniþrótta-aðstöðu Þróttar og Ármanns í Laugardal og skólanna í hverfinu, sem hefur verið í miklu ólestri árum saman.
Samkvæmt áformunum áttu bæði félögin að geta nýtt nýju þjóðarhöllina ásamt því að nota gömlu Laugardalshöllina undir starfsemi sína.
Þrýstihópar innan beggja félaga höfðu kallað eftir því að lausn myndi finnast á aðstöðuleysi félaganna tveggja og að hún yrði formfest. Þar kom helst tvennt til greina: annað hvort næðist saman um þjóðarhöll sem ungmenni í Laugardalnum gætu nýtt eða að nýtt íþróttahús yrði byggt á bílastæðinu við Þróttarvöllinn.
Dagur B. Eggertsson hafði gefið ríkinu frest fram í byrjun maí til að leggja fram fé í þjóðarhallarverkefnið. Næðist það ekki myndi borgin taka tvo milljarða króna sem hún hafði sett til hliðar fyrir það og nota þá til að byggja nýtt íþróttahús fyrir iðkendur Þróttar og Ármanns í Laugardal. Gengið var út frá því að sú lausn hefði náðst með undirritun viljayfirlýsingarinnar 6. maí.
Nú, rúmum fjórum mánuðum eftir borgarstjórnarkosningar, hefur framkvæmdalokum verið slegið á frest.