Óhætt er að fullyrða að Dagur Sigurðsson, fyrrverandi handboltakappi með Val og fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handbolta, sé einn allra eftirsóttasti handboltaþjálfari heims í dag. Frábær árangur hans sem leikandi þjálfari með austurríska liðinu Bregenz, sem landsliðsþjálfari Austurríkis og þjálfari þýska úrvalsdeildarliðsins Füsche Berlin hefur ekki farið framhjá neinum.
Afrek Dags á hliðarlínunni urðu til að mynda til þess að ein stærsta handboltavefsíða í heimi útnefndi hann besta handboltaþjálfara heims árið 2011, fyrir að koma landsliði Austurríkis í fyrsta skipti á stórmót, þar sem liðið hafnaði í níunda sæti, og sömuleiðis fyrir undraverðan árangur með Füsche Berlin.
Svo góður rómur var gerður að Degi sem þjálfara að danska handboltasambandið falaðist eftir starfskröftum hans á síðasta ári og bauð honum að gerast næsti landsliðsþjálfari karlaliðs Dana í handbolta, sem hann hafnaði. Danska handboltasambandið sneri sér þá til Guðmundar Guðmundssonar, fyrrverandi þjálfara karlalandsliðs Íslands í handbolta, sem þekktist boðið og gegnir stöðunni í dag.
Lætur gagnrýni á ráðninguna sem vind um eyru þjóta
Dagur var á dögunum kynntur til leiks sem þjálfari karlalandsliðs Þjóðverja í handbolta. Ráðning hans hefur verið gagnrýnd í Þýskalandi, ekki vegna þess að hæfileikar Dags séu umdeildir, því fer fjarri, heldur svíður mörgum þýskum handboltakverúlöntum að útlendingur hafi verið ráðinn til að stýra stærsta handboltalandsliðið heims, í sjálfu Mekka handboltans; Þýskalandi.
Til marks um andstöðuna sem ráðning Dags hefur mætt í Þýskalandi hefur sjálfur Heiner Brandt, þýska handboltagoðsögnin sem stýrði landsliði Þýskalands til sigurs á EM árið 2004 og HM árið 2007, lýst því yfir að honum hugnist ekki að útlendingur stýri landsliði Þýskalands.
Dagur segir andstöðuna í Þýskalandi við ráðningu hans ekki hafa komið sér á óvart. „Hún gerir í sjálfu sér ekki neitt annað en að gera mann einbeittari í að ná árangri. Ef hann næst ekki fer bara eins fyrir mér og öllum öðrum. Mér finnst ekkert skrítið að svona umræða komi upp hjá svo stórri handboltaþjóð, og ég held að sambærileg umræða færi líka af stað á Íslandi. Þeir eru ekkert á móti útlendingum, heldur eru þeir bara að segja sína skoðun á því að þeir hefðu viljað leita þjálfara innan sinna raða, og það er bara allt í lagi að þeir hafi þá skoðun.“
Þetta er stutt útgáfa umfjöllunarinnar. Umfjöllunina í fullri lengd má nálgast í Kjarnanum.