Íbúðaverð sem hlutfall af launum landsmanna hefur farið hratt vaxandi á þessu ári eftir að hafa leitað hægt niður á við allt frá því í apríl 2017.
Frá ársbyrjun 2014 hefur hlutfallið hækkað um 19 prósent, en vísitala paraðra viðskipta með íbúðarhúsnæði hækkaði um 103 prósent á meðan að vísitala launa hækkaði um 71 prósent yfir sama tímabil.
Þetta þýðir að íbúðaverð hefur að jafnaði hækkað meira en laun í landinu miðað við launavísitölu hagstofunnar.
Frá þessu er greint í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 15,5 prósent á einu ári
Mikil eftirspurnarþrýstingur er eftir húsnæði og framboð hefur á sama tíma dregist saman. Margt skýrir það. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á jókst sparnaður landsmanna þar sem þeir eyddu minna í aðra hluta eins og ferðalög erlendis og ýmis konar afþreyingu, einfaldlega vegna þess að það var ekki hægt. Samhliða gengu í gildi launahækkanir og stjórnvöld og Seðlabankinn gripu til margháttaðra aðgerða til að örva efnahagslífið. Meðal þeirra var að afnema sveiflujöfnunarauka sem lagðist á eigið fé banka til að auka útlánagetu þeirra og að lækka stýrivexti niður í áður óséðar lægðir, eða 0,75 prósent.
Þessi þróun hefur haldið áfram í ár og tólf mánaða hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var 15,5 prósent í september og hækkaði úr 14,8 prósent í ágúst. Mest mældist tólf mánaða hækkunin á Suðurnesjum eða 21,7 prósent og þar á eftir á Vestfjörðum, 18 prósent. Samkvæmt greiningu HMS hefur fasteignaverð hefur hins vegar hækkað langminnst á Norðausturlandi, eða um tvö prósent, á síðustu 12 mánuðum.
Fátt virðist benda til að þessu ástandi sé að ljúka, en gerðum kaupsamningum fjölgaði milli mánaða þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi gripið til ýmissa aðgerða til að takmarka útlán til íbúðarkaupa og að vextir hafi hækkað nokkuð skarpt frá því í vor.
Þriðjungur fyrstu kaupendur
Í skýrslu HMS segir að þrátt fyrir ört hækkandi íbúðaverð hafi hlutfall fyrstu kaupenda haldist hátt, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu þar sem það mældist 33,7 prósent á þriðja ársfjórðungi. Hlutfallið hefur aðeins dalað á landsbyggðinni en var þó 27 prósent.
Þar sem kaupsamningum almennt hefur fækkað, þá hefur fjöldi fyrstu kaupenda einnig minnkað. í skýrslunni segir að fyrstu kaupendur hafi verið tæplega 600 á þriðja ársfjórðungi á höfuðborgarsvæðinu en tæplega 800 á þriðja ársfjórðungi 2020. Á landsbyggðinni fór fjöldi fyrstu kaupenda á sama tímabili úr tæpum 400 í tæplega 300.