Drög að árshlutareikningi Icelandair Group fyrir 3. ársfjórðung benda til þess að afkoma félagsins hafi verið betri en áður hafði verið spáð. Afkomuhorfur fyrir fjórða ársfjórðung hafa einnig styrkst og gerir uppfærð spá um afkomu fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) ráð fyrir 210 til 215 milljóna dollara afkomu á árinu 2015. Síðasta spá gerði ráð fyrir að EBITDA hagnaðir yrði 180 til 185 milljónir dollara.
Þetta kemur fram í afkomuviðvörun frá Icelandair Group til Kauphallarinnar í dag. Samkvæmt drögum fyrir þriðja ársfjórðung verður EBITDA ársfjórðungsins um 150 milljónir dollara samanborið við um 124 milljónir dollara á sama tíma 2014. „Helstu ástæður fyrir betri afkomu á þriðja ársfjórðungi en gert hafði verið ráð fyrir eru hærri farþegatekjur og lægri eldsneytiskostnaður, auk þess sem viðhaldskostnaður var lægri en áætlað hafði verið,“ segir í tilkynningunni.
Árshlutareikningur félagsins verður birtur eftir lokun markaða þann 29. október síðastliðinn. Við upphaf viðskipta í Kauphöllinni í dag var gengi bréfa Icelandair Group 32,38 krónur á hlut. Hlutabréf í félaginu hafa hækkað um meira en 60 prósent frá síðustu áramótum, þegar gengi bréfanna stóð í tæpum 22 krónum á hlut.