Icelandair Group hefur gert bindandi samkomulag við bandaríska fjárfestingarsjóðinn Bain Capital um að hann kaupi nýtt hlutafé í flugfélaginu. Samkvæmt samkomulaginu, sem enn á eftir að samþykkja á hluthafafundi áður en það verður að veruleika, mun Bain Capital greiða 8,1 milljarð króna og eignast fyrir vikið 16,6 prósent hlut í Icelandair Group. Það þýðir að Bain Capital er að greiða aðeins lægra verð á hlut, 1,43 krónur, en virði bréfa í Icelandair Group var í lok dags í gær, þegar greiða þurfti 1,46 krónur á hlut fyrir bréf í félaginu. Núverandi hluthafar þurfa að falla frá forgangskauprétti á nýju hlutafé eigi samkomulagið að verða að veruleika.
Verði þetta samkomulag samþykkt á hluthafafundi mun Bain Capital verða stærsti einstaki eigandi Icelandair Group og fá fulltrúa í stjórn Icelandair. Úlfar Steindórsson, sem verið hefur stjórnarformaður Icelandair Group undanfarin ár, mun stíga til hliðar sem slíkur ef hlutafjáraukningin verður samþykkt af öðrum hluthöfum.
Til viðbótar gerir samkomulagið ráð fyrir því að Bain Capital, sem var meðal annars stofnað af fyrrverandi forsetaframbjóðandanum og núverandi öldundardeildarþingmanninum Mitt Romney, fá áskriftarréttindi fyrir hlutum sem samsvara 25 prósent af heildarfjölda þeirra nýju hluta sem gefnir verða út. Bain Capital á eignarsafn sem er metið á 130 milljarða Bandaríkjadala.
Sóttu síðast nýtt hlutafé í september í fyrra
Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem Icelandair Group fer í hlutafjáraukningu. Félagið safnaði alls 23 milljörðum króna í útboði sem fór fram í september í fyrra, en það hefur átt í miklum rekstrarvanda um árabil sem jókst verulega þegar kórónuveirufaraldurinn skall á í fyrravor. Fjöldi hluthafa fór yfir ellefu þúsund eftir útboðið og því ljóst að fjölmargir einstaklingar keyptu fyrir litlar fjárhæðir í því.
Alls nam tap samstæðunnar um 45 milljörðum króna á fyrri hluta ársins 2020. Stærstan hluta þess taps, sem nemur 245 milljónum króna á dag, má rekja beint til kórónuveirufaraldursins. Fyrir lá að félagið átti ekki nægt laust fé til að lifa mikið lengur við óbreyttar aðstæður. Tap Icelandair á árinu 2020 í heild var 51 milljarður króna og á fyrstu þremur mánuðum ársins 2021 tapaði félagið 3,9 milljörðum króna.
Eigið fé Icelandair Group nam 29,7 milljörðum króna í lok síðasta árs árs og eiginfjárhlutfall lækkaði úr 29 prósent í 25 prósent frá fyrra ári. Lausafjárstaða félagsins nam 42,3 milljörðum króna. Hún lækkaði um 6,5 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2021 og eiginfjárhlutfallið var komið niður í 23 prósent í lok mars.
Hluthafar þynntir niður...aftur
Í aðdraganda hlutafjárútboðsins samþykkti íslenska ríkið að gangast í ábyrgð fyrir 90 prósent af 16,5 milljarða króna lánalínu til Icelandair Group. Sú ríkisábyrgð var samþykkt á Alþingi í ágúst.
Í útboðinu í fyrra, þar sem hlutir voru seldir á eina krónu, var hlutafé aukið það mikið að þeir sem áttu hlutafé í Icelandair Group áður þynntust niður í 15,3 prósent. Hluti þeirra tók aftur þátt í útboðinu og varði eign sína að hluta eða öllu leyti.
Verði samkomulagið við Bain Capital samþykkt munu núverandi hluthafar þynnast niður í 83,4 prósent hlut, níu mánuðum eftir að þeir keyptu nýtt hlutafé í félaginu.
Tilkynnt ofan í útboð Play
Tilkynning Icelandair Group um hlutafjáraukninguna var send út kvöldið áður en að hlutafjárútboð flugfélagsins Play hófst. Stefnt er að því að safna 4-4,4 milljörðum króna og skrá félagið, sem verður helsti samkeppnisaðili Icelandair Group hérlendis, í kjölfarið á First North markaðinn.
Þess utan fer fyrsta flugvél Play í loftið í dag og flýgur með farþegar til London.
Í útboðslýsingu félagsins kemur fram að þessi fjármögnun muni hjálpa lausafjárstöðu þess enn frekar, en Play segist nú þegar hafa náð að safna tæpum sjö milljörðum króna í fjármögnun.
Búist er við að almenn viðskipti með hluti í Play hefjist föstudaginn 9. júlí.
Í útboðslýsingu segir að Play búist við því að selja selja jafnmörg sæti og WOW air gerði árið 2017 innan fjögurra ára. Það stefnir á að hefja flug til Bandaríkjanna næsta vor, en mun halda starfsmannakostnaði í lágmarki með því að láta starfsmenn sína vinna lengur en starfsmenn annarra flugfélaga og taka færri frídaga en starfsmenn WOW air tóku.