Keldan hefur birt fjárhagsupplýsingar 300 stærstu fyrirtækja Íslands miðað við rekstrartekjur samkvæmt nýjustu upplýsingum. Samkvæmt listanum er Icelandair stærsta fyrirtækið á Íslandi í dag, Marel í öðru sæti og Icelandic Group í því þriðja. Heildarrekstrartekjur Icelandair Group námu rúmlega 140 milljörðum króna í fyrra. Marel var með um 110 milljarða króna.
Á vefsíðu Keldunnar geta notendur nú leitað eftir fyrirtæki og fengið fjárhagsupplýsingar eins og tekjur, afkomu, eignir og skuldir auk upplýsinga um lykilstarfsfólk, dótturfélög og stærstu eigendur. Allar þessar upplýsingar eru uppfærðar þegar nýr ársreikningur fyrirtækis berst.
Keldan, sem er í eigu hugbúnaðarfyrirtækisins Kóða, hefur undanfarið ár unnið að vélrænum lestri og greiningu ársreikninga í samstarfi við sérfræðinga í meðferð fjárhagsupplýsinga. Í dag telur gagnagrunnurinn yfir 600 fyrirtæki og fer vaxandi.
Þeir sem ekki eru skráðir notendur á Keldunni geta skoðað sextíu stærstu fyrirtækin endurgjaldslaust en á meðal þeirra eru viðskiptabankarnir, Landsvirkjun og álframleiðslufyrirtækin hér á landi, svo einhver séu nefnd.
Gögnin eru skipulögð á þann hátt að auðvelt er að bera fyrirtæki innan sömu atvinnugreinar saman eða raða sérstaklega eftir lykiltölum. Söguleg gögn eru svo sett í samhengi við nýjustu upplýsingar á síðu hvers fyrirtækis fyrir sig.