Á þremur mánuðum, frá því í byrjun apríl og fram í lok júní, nam tap af rekstri Icelandair Group 6,9 milljörðum króna. Á sama tímaskeiði í fyrra nam tapið hjá flugfélaginu 11,4 milljörðum króna. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu flugfélagsins, sem barst eftir lokun Kauphallarinnar í dag. Tap félagsins á fyrsta ársfjórðungi nam 4 milljörðum króna og er tapið á fyrri helmingi ársins 2021 því samtals 10,9 milljarðar.
Þrátt fyrir taprekstur annars ársfjórðungs gætir jákvæðni í fréttatilkynningu flugfélagsins, en lausafjárstaða félagsins styrktist verulega vegna mikillar aukningar í bókunum á flugi á seinni helmingi ársins.
„Handbært fé frá rekstri nam 8,2 milljörðum króna (65,0 milljónum dala) samanborið við neikvætt handbært fé frá rekstri að fjárhæð 12,2 milljarðar króna (96,8 milljónir dala) á sama fjórðungi í fyrra sem er aukning um 20,4 milljarða króna (161,8 milljóna dala). Lausafjárstaða félagsins í lok fjórðungsins nam 45,6 milljörðum króna (362,5 milljónum dala), þar af handbært fé og lausafjársjóðir að fjárhæð 24,0 milljarðar króna (190,5 milljónir dala), sem er aukning um 10,1 milljarða króna (80,6 milljónir dala) í fjórðungnum,“ segir í tilkynningu frá flugfélaginu.
Kostnaðarsamt að auka umsvif
Félagið jók umsvif sín mikið á öðrum ársfjórðungi og fór fjöldi brottfara á viku úr 28 í apríl í 160 í júní. „Talsverður kostnaður felst í því að hefja flug á ný og er því framlegð af fyrstu flugum yfirleitt minni en þegar flugáætlun hefur gengið í ákveðinn tíma. Sætanýting jókst jafnt og þétt eftir því sem leið á fjórðunginn þrátt fyrir mikla aukningu á tíðni fluga. Þá féll töluverður rekstrarkostnaður til vegna undirbúnings félagsins fyrir metnaðarfulla flugáætlun til að mæta aukinni eftirspurn á seinni hluta þessa árs. Meðal annars er um að ræða kostnað við að taka vélar aftur í rekstur eftir mánuði í geymslu, innleiðingu þriggja nýrra Boeing 737 MAX véla inn í flota félagsins, þjálfun starfsfólks og markaðsmál. Þessi fjárfesting mun skila sér í auknum tekjum síðar á árinu,“ segir í tilkynningu Icelandair.
Í tilkynningu félagsins segir að flugframboð Icelandair í júlí verði um 43 prósent af framboði félagsins í júlí 2019 á meðan framboð á öðrum ársfjórðungi hafi verið einungis 15 prósent af framboði á sama tíma árið 2019.
„Sætanýting í júlí er áætluð um 70% samanborið við 47% í öðrum ársfjórðungi 2021. Miðað við núverandi horfur er gert ráð fyrir að flugframboð muni aukast enn frekar í ágúst og sætanýting sömuleiðis. Lokaniðurstaða ræðst þó af þeim áhrifum sem þróun faraldursins og ferðatakmarkanir hafa á eftirspurn,“ segir í tilkynningu flugfélagsins.
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group segir að viðspyrnan sé hafin, en að aukning í umsvifum sem og áframhaldandi áhrif af COVID-19 faraldrinum hafi haft veruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu annars ársfjórðungs. Á móti komi hafi mikil aukning bókana fyrir flug á seinni hluta ársins hafði jákvæð áhrif á handbært fé frá rekstri.
„Allt frá því að heimsfaraldurinn skall á, höfum við lagt mikla áherslu á að viðhalda innviðum og sveigjanleika til að geta brugðist hratt við örum breytingum á mörkuðum okkar og aukið flugið um leið og tækifæri gæfist. Þetta erum við að gera nú og var flugframboð okkar í öðrum ársfjórðungi fimmfalt meira en á sama tíma í fyrra og voru farþegar í millilandaflugi fjórfalt fleiri. Þá hefur innanlandsflugið gengið vel að undanförnu og var framboðið í öðrum ársfjórðungi um 85% af framboði okkar á sama tíma 2019,“ er haft eftir Boga Nils í tilkynningu.
400 þúsund ferðamenn
Hann segir flugfélagið gera ráð fyrir því að flytja um 400 þúsund ferðamenn til Íslands á þessu ári og að áætlað sé að þessir farþegaflutningar skapi um 80 milljarða króna útflutningstekjur.
„Þá er ánægjulegt að margir fyrrverandi samstarfsfélagar hafi komið aftur til starfa á undanförnum vikum vegna aukinna umsvifa. Við gerum ráð fyrir að meðalfjöldi heilsársstarfa verði um 2.100 á þessu ári og áætlum að bein efnahagsleg áhrif félagsins í formi launa, launatengdra gjalda og lífeyrisgreiðslna verði um 26 milljarðar króna á árinu. Þá eru ótalin óbein efnahagsleg áhrif, ekki einungis á ferðaþjónustu í landinu heldur hagkerfið í heild,“ er haft eftir Boga Nils.
Vonast eftir að Bandaríkin opni sig
Bogi Nils segir að Icelandair finni fyrir „miklum áhuga á Íslandi sem áfangastað“ og að félagið hafi „sett fram metnaðarfulla flugáætlun á seinni helmingi ársins.“
„Við höldum þó áfram að stýra leiðakerfinu eftir því hvernig faraldurinn og ferðatakmarkanir þróast en ákveðinnar óvissu gætir enn vegna stöðu faraldursins og hertra ferðatakmarkana á landamærum Íslands. Við bindum vonir við að Bandaríkin muni opna fyrir ferðalög frá Evrópu á þriðja ársfjórðungi. Þá er uppgangur í fraktflutningum og eftirspurn eftir leiguflugi einnig að aukast á seinni helmingi ársins sem styður við tekjuöflun og sjálfbæran vöxt félagsins til framtíðar,“ er haft eftir Boga Nils.
Icelandair Group heldur rafrænan hluthafafund á morgun kl. 16 þar sem teknar verða fyrir tillögur um hlutafjáraukningu í tengslum við aðkomu bandaríska fjárfestingarsjóðsins Bain Capital um kaup á nýju hlutafé í félaginu, en alls hefur Bain Capital skuldbundið sig til að kaupa 16,6 prósenta hlut í félaginu á 8,1 milljarða króna.