Húsgagnaframleiðandinn IKEA segir að fyrirtæki muni líklega verða fyrir töfum á afhendingu á vörum sínum fram á næsta ár, þar sem erfitt verður að flytja vörur sem búnar eru til í Kína til Evrópu. Upplýsingafulltrúi IKEA á Íslandi segir ástandið hafa verið sveiflukennt, en mikil forgangsröðun hafi átt sér stað til að ganga úr skugga um að mikilvægustu vörurnar skili sér.
Virðiskeðjan undir álagi
Líkt og fréttastofa CNN greindi frá fyrr í vikunni er vöruskortur víða um heim vegna óvenjumikils álags á alþjóðlegu virðiskeðjunni. Álagið er meðal annars tilkomið vegna skorts á hrávörum, en miklar breytingar í eftirspurn, ásamt skorti á vörubílstjórum og auknum sóttvarnarráðstöfunum á landamærum hafa einnig leitt til þess að mikið hökt hefur myndast í vöruflutningum.
Sérfræðingar telja að það muni taka langan tíma að vinda ofan af þessum vanda, en ráðgjafafyrirtækið Moody’s Analytics sagði stöðuna munu verða „verri áður en hún verður betri“ í nýlegri greiningu.
Meiri eftirspurn en hökt á framboði
Samkvæmt frétt Reuters frá því í gær hafa IKEA-útibú í Bandaríkjunum orðið verst úti vegna framboðstruflananna, en vandamál tengd þeim hafa einnig sprottið upp í útibúum fyrirtækisins í Evrópu. Þó er mikil eftirspurn eftir vörum húsgagnaframleiðandans, en IKEA hefur aldrei selt jafnmikið og á nýliðnu skattaári. Heildarverðmæti seldra vara fyrirtækisins tæpum 42 milljörðum evra á nýliðnu skattaári, eða um 6.300 milljörðum íslenskra króna, samkvæmt frétt sem birtist á vef Nasdaq fyrr í vikunni. Það er meira en tvöföld landsframleiðsla Íslands.
Jon Abrahamsson, framkvæmdastjóri Inter IKEA, sem tengir leyfishafa á vörumerki IKEA hvers lands við framleiðendur, sagði í viðtali við Reuters að hann gerði ráð fyrir að framboðstruflanir myndu ná fram á næsta ár. Samkvæmt honum er mesti flöskuhálsinn að flytja þær vörur fyrirtækisins sem eru framleiddar í Kína til vesturlanda. Allt að fjórðungur af vörum IKEA eru nú framleiddar í landinu.
Sveiflukennt ástand hérlendis
Guðný Camilla Aradóttir, yfirmaður samskiptadeildar IKEA á Íslandi, segir stöðuna í vörubirgðum verslunarinnar hérlendis hafa verið sveiflukennda hingað til í faraldrinum og að stundum komi tímabil þar sem ákveðnar vörur eru ekki fáanlegar. Hins vegar bætir hún því við að fyrirtækið hafi brugðist við þessum aðstæðum á alþjóðavísu fyrir mörgum mánuðum síðan með því að forgangsraða í aðfangakeðjunni þannig að mikilvægustu vörurnar skili sér fyrst.