Inga Sæland formaður Flokks fólksins og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddu kjör öryrkja og ellilífeyrisþega í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Þingmaðurinn spurði forsætisráðherrann meðal annars hvað hún ætlaði að gera fyrir fátækt fólk núna fyrir jólin.
Inga sagðist í fyrirspurn sinni hafa sem fjögurra barna móðir og öryrki grátið hér áður fyrr og kviðið jólunum hvert einasta ár – og það í boði sitjandi ríkisstjórna hverju sinni. „Heildarendurskoðun á kerfinu, desemberuppbót og töluverður halli sem við eigum að vita að er á ríkissjóði. Skyldi hafa verið hugsað um þennan halla á ríkissjóði þegar hæstvirtur fjármálaráðherra steig fram fyrir alþjóð í fjölmiðlum og sagði að kostnaður við þennan ráðherrakapal sem nú hefur verið í gangi í boði ríkisstjórnarinnar myndi sennilega hlaupa á einhverjum hundruðum milljóna.“
Hún sagði enn fremur að þingmenn hefðu fengið fleiri hundruð pósta, í unnvörpum, frá óttaslegnum foreldrum og vansælum fjölskyldum sem væru að biðja um hjálp.
Beindi Inga sjónum sínum að desemberuppbót sem öryrkjar og ellilífeyrisþegar fengu nú í desember. „Þegar búið er að leggja inn ríflega 30.000 krónur á bankabókina hjá öryrkjanum og ellilífeyrisþeganum, sem fær ekkert annað en berstrípaðar almannatryggingar, þá verður ekkert eftir. Þetta skerðir allt saman; heimilisuppbótina, húsaleigubæturnar, skerðir allt saman. Eftir er 0. Er þetta desemberuppbót sem einhver getur verið stoltur af? Svarið er nei. Þetta er bjarnargreiði sem gerir ekkert fyrir fátækasta fólkið í landinu,“ sagði hún.
Spurði Inga Katrínu hvort hún hefði fengið þetta ákall samfélagsins um það að fá „smá jólabónus, skatta- og skerðingarlausan, sem raunverulega nýtist fjölskyldunum, sem getur raunverulega sett mat á diskinn, sem lætur raunverulega börnin okkar ekki fara í jólaköttinn? Er furða að ég spyrji?
Það hefur ekkert að segja fyrir öryrkja og aldraða sem eiga ekki fyrir salti í grautinn þó að það eigi að stokka upp þetta handónýta Tryggingastofnunarkerfi sem löngu er orðið tímabært. Það hefur ekkert að segja. Ætlarðu að reyna að hjálpa fátæku fólki fyrir jólin með því að gefa þeim skattfrjálsa jólauppbót?“ spurði Inga Katrínu.
Finnst mikilvægt að endurskoða kerfið
Katrín svaraði og þakkaði Ingu fyrir fyrirspurnina. „Hún endurspeglar nákvæmlega það sem ég hef verið að segja. Hér kemur háttvirtur þingmaður upp og talar um skerðingar í kerfinu og það er nákvæmlega það sem ég hef verið að tala um hér, að við erum með kerfi þar sem hver viðbótarhækkun skerðir ýmist aðra bótaflokka eða aðrar tekjur.“
Hún spurði Ingu hvort hún væri sammála henni um að endurskoða ætti þetta kerfi sem hún talaði um í „einhverjum háðungartón“.
„Finnst háttvirtum þingmanni það ekki mikilvægt þegar hún stendur hér einmitt og talar um nákvæmlega það sem er að í kerfinu, sem eru þessar innbyrðisskerðingar? Það er auðvitað nokkuð sem við þurfum að ráðast í og hefur verið nákvæmlega það sem hefur verið forgangsatriði með því sem var gert á síðasta kjörtímabili, bæði gagnvart skerðingum í atvinnutekjum og innbyrðisskerðingum bótaflokka.“
Katrín benti á að fyrrnefnd desemberuppbótina næmi 64.000 krónum fyrir öryrkja sem búa einir en tæki einmitt skerðingu vegna þess að kerfið væri þannig uppbyggt.
„Ég ætla ekki að hika við að segja: Já, mér finnst mikilvægt að endurskoða þetta kerfi. Það kann vel að vera að háttvirtur þingmaður sé ósammála mér og þá er það bara þannig.“
„Það er algjörlega verið að leggja mér orð í munn“
Inga kom aftur í pontu og sagðist þakka forsætisráðherra fyrir „akkúrat ekkert svar“ enda hefði hún ekki búist við miklu. „Ég spurði einfaldlega hvort hjálpa ætti þessu fólki núna fyrir jólin. Og það er algjörlega verið að leggja mér orð í munn þegar ég tala hér um haldónýtt tryggingastofnunarkerfi ef hæstvirtur forsætisráðherra hefur tekið það þannig inn að mér finnist vera allt í lagi með kerfið í heild sinni. Það er alls ekki svo. Ég er ekki að tala um þetta eina prósent, þennan aumingjaskap sem á að klína á þau sem geri enn gleiðara kjarabil núna eftir áramót, ég er ekki að tala um það.“
Hún sagðist vera að tala um jólin núna. „Ég er að tala um þann tíma. Eftir 12 daga: Aðfangadag. Ég er að tala um hvort að fátækt fólk og öryrkjar geti keypt sér eitthvað annað en að halda áfram að elda hafragraut og vera með hrísgrjónagraut í matinn. Ég er að tala um hvort hægt sé að stíga niður á jörðina til þeirra hinna sem hafa það bágt og aðeins líta út fyrir eigin velferð og eigin velsæld og eigið peningaveski og koma til móts við fólkið okkar sem er að biðja um hjálp núna.“
Spurði hún í framhaldinu hvað Katrín ætlaði að gera núna í þessum málum en ekki eftir áramót.
Mikil þörf á því að skapa þverpólitíska samstöðu
Katrín sagðist í kjölfarið fagna því að Inga vildi endurskoða kerfið því að mikil þörf væri á því að reyna einmitt að skapa þverpólitíska samstöðu um málið.
„Eins og fram kom í máli mínu áðan endurspeglast skýr vilji ríkisstjórnarinnar til þess að horfa sérstaklega til þessa hóps í því fjárlagafrumvarpi sem hér er til meðferðar,“ sagði hún og bætti því við að fjárlaganefnd væri með frumvarpið til skoðunar og gæti tekið afstöðu til frekari úrbóta á því sviði í þinglegri meðferð.