Ingvar Smári Birgisson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra, en frá þessu var sagt í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu í dag. Áður hafði verið greint frá því að Teitur Björn Einarsson sem hafði verið Jóni til aðstoðar frá því í febrúar hefði verið ráðinn aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar.
Síðast starfaði Ingvar sem lögfræðingur hjá Íslensku lögfræðistofunni, en hann lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2019 og fékk málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 2019.
Áður var Ingvar blaðamaður á Morgunblaðinu á árunum 2014-2016 og fulltrúi hjá Nordik lögfræðiþjónustu árin 2016-2019.
Fyrr á þessu ári tók Ingvar sæti í stjórn Ríkisútvarpsins.
Fyrrverandi formaður SUS
Ingvar hefur tekið þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins árum saman. Hann var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík árin 2013-2015 og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna frá 2017-2019.
Í formannstíð sinni hjá SUS vakti hann nokkra athygli fyrir að setja fram lögbannskröfu á vefinn Tekjur.is, sem birti upplýsingar um tekjur allra skattgreiðenda á árinu 2017. Lögbannsbeiðninni var hafnað.
Ingvar mun starfa við hlið Brynjars Níelssonar sem aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar og verður hann sá þriðji sem kemur til aðstoðar Jóni frá því að hann tók við dómsmálaráðuneytinu undir lok síðasta árs.
Hreinn Loftsson sagði sig frá starfinu skömmu eftir að hann tók við því og svo tók Teitur Björn við í febrúar.