Þegar vörumerki Air Iceland Connect verður lagt niður og bókanir á innanlandsflugi færast inn í bókunarvél Icelandair verður hægt að nota ferðainneignir og gjafabréf hjá Icelandair til þess að bóka innanlandsflug og einnig flug til Grænlands.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur á upplýsingasíðu á vef Icelandair, þar sem farið er yfir hvernig breytingarnar sem fylgja samþættingu Air Iceland Connect og Icelandair snerta viðskiptavini félagsins.
Icelandair Group tilkynnti í morgun að frá og með 16. mars myndi vörumerkið Air Iceland Connect heyra sögunni til og markar það eins konar lokahnykk á samþættingarferli sem hófst með því að innanlandsflugið rann inn í starfsemi Icelandair í mars í fyrra.
Ljóst er að margir eiga inneignir hjá Icelandair vegna flugferða sem ekki hafa verið farnar vegna COVID-19 faraldursins. Í uppgjöri Icelandair Group fyrir árið 2020 segir að alls hafi verið gefnar út ferðainneignir fyrir 94,2 milljónir dollara í fyrra, jafnvirði rúmlega 12 milljarða króna, á gengi dagsins í dag.
Þá bætast við gjafabréf og annað flug sem fólk er búið að greiða fyrir hjá félaginu, en alls voru seldir ónotaðir farmiðar og inneignir metnar á yfir 157 milljónir dala um áramót. Það eru rúmlega 20 milljarðar króna.
Ekki lengur hægt að bóka til Færeyja né áfangastaða Norlandair
Á vef Air Iceland Connect hefur verið hægt að bóka flug með færeyska flugfélaginu Atlantic Airways til Færeyja og sömuleiðis á áfangastaði Norlandair. Það verður ekki hægt að bóka þessi flug á vef Icelandair og vísar Icelandair á vefi þessara samstarfsaðila sinna.
Norlandair flýgur til Vopnafjarðar, Þórshafnar, Grímseyjar, Bíldudals og Gjögurs. Fram kemur á vef Icelandair að félögin muni áfram vinna þétt saman og engin breyting verði á þjónustu við farþega frá Akureyrarflugvelli né Reykjavíkurflugvelli.
Börn munu áfram fá 50 prósent afslátt innanlands
Icelandair bendir viðskiptavinum sínum á að börn muni áfram fá 50 prósent afslátt af almennum fargjöldum innanlands, en í tilkynningu félagsins frá því í morgun kom fram að vinna stæði yfir við endurmat á vörum og þjónustu í innanlandsflugi. Leyfileg þyngd á innrituðum farangri innanlands fer úr 20 kílóum upp í 23 kíló við samþættinguna.
Hjá Air Iceland Connect hefur verið hægt að kaupa svokallað Flugfrelsi, sem eru afsláttarfargjöld fyrir þá sem ferðast oft. Þegar fólk kaupir Flugfrelsi er það að kaupa inneign upp í sex flugleggi innanlands.
Eftir yfirfærsluna þann 16. mars verður sölu Flugfrelsis hætt og breytingar verða sömuleiðis á skilmálum og þjónustu Flugkappa og Flugfélaga, sem eru svipuð afsláttarfargjöld fyrir ungt fólk og börn. Icelandair segir að skilmálar útstandandi ferðainneigna sem keyptar eru fyrir 16. mars verði óbreyttir.
Fleiri vildarpunktar í innanlandsflugi
Fram kemur á vef Icelandair að félagar í fríðindaklúbbnum Saga Club muni nú fá fleiri Vildarpunkta út á hvert innanlandsflug en verið hefur.
Economy-fargjöld Icelandair munu leysa fargjöld Air Iceland Connect, sem heita Létt, Klassíkt og Fríðindi af hólmi.
Munu þeir sem ferðast á Economy Light innanlands nú fá 500 punkta í stað 200 áður, þeir sem velja Economy Standard fá 1.000 punkta í stað 500 áður og þeir sem velja Economy Flex-fargjöld fá 1.500 punkta í stað 1.000 áður.