Innflutningsbann Rússa hefur mikil áhrif á starfsemi HB Granda og minnkar tekjur félagsins, verði það viðvarandi, um 10 til 15 milljónir evra á ári, eða sem nemur tæplega 1,5 til 2,2 milljörðum króna. „Innflutningsbann sjávarafurða til Rússlands hefur mikil áhrif á markaðsstarf félagsins og starfsemi þess, sérstaklega á Vopnafirði gangi það að fullu eftir. Um 17% tekna félagsins komu frá rússneskum aðilum árið 2014. Erfitt er að meta fjárhagsleg áhrif þessa á HB Granda hf en gróflega áætlað munu tekjur félagsins lækka um u.þ.b. 10-15 milljónir evra á ársgrundvelli. Árið 2014 námu tekjur félagsins 215 milljónum evra. Félagið á nú um 3,2 milljónir evra í útistandandi kröfum í Rússlandi,“ segir í tilkynningu frá HB Granda til kauphallar.
Útistandandi kröfur í Rússlandi nema um 473 milljónumm króna, miðað við núverandi gengi.
Hagnaður á öðrum ársfjórðungi var 4,9 milljónir evra, eða sem nemur 725 milljónum króna, og á fyrri árshelmingi 10,6 milljónir evra, eða sem nemur rúmlega 1,5 milljarði króna.
Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrri helming ársins 2015 (1 evra = 148,64 kr) verða tekjur 16,4 milljarðar króna, EBITDA 4,6 milljarður og hagnaður 3,3 milljarðar, að því er segir í tilkynningu. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 30. júní 2015 (1 evra = 146,84 kr) eru eignir samtals 57,4 milljarðar króna, skuldir 24,8 milljarðar og eigið fé 32,6 milljarðar.