Ísland var eitt þriggja Evrópulanda sem varð ekki fyrir miklum samdrætti í bókunum bandarískra ferðamanna eftir að Rússlandsher réðst inn í Úkraínu. Þetta kemur fram í nýrri greiningu fyrirtækisins ForwardKeys.
13 prósenta samdráttur milli vikna
Samkvæmt greiningunni hefur virkilega dregið úr ferðavilja Bandaríkjamanna í álfunni, en flugbókanir þeirra drógust saman um allt að helming í austurhluta hennar í síðustu viku febrúarmánaðar, miðað við vikuna þar á undan.
Að Úkraínu og Hvíta-Rússlandi undanskildu var samdrátturinn mestur í Moldóvu, þar sem hann nam yfir 50 prósentum. Einnig drógust flugbókanir saman um allt að helming í Eystrasaltslöndunum, Póllandi, Slóvakíu, Ungverjalandi, Slóveníu, Króatíu og Búlgaríu.
Í flestum hinum Evrópulöndunum nam samdrátturinn á milli vikna hins vegar á bilinu tíu til 30 prósentum. Í Serbíu, Belgíu og á Íslandi fækkaði bókunum einnig, en þó um ekki meira en tíu prósent. Að meðaltali drógust bókanirnar saman um 13 prósent.
Financial Times fjallaði um minnkandi ferðavilja Bandaríkjamanna vegna innrásarinnar fyrr í dag. Samkvæmt þeirri umfjöllun búast evrópskir hótelkeðjueigendur við miklum samdrætti í bókunum í allri álfunni, þar sem bandarískir ferðamenn gætu óttast að heimsækja hana vegna stríðsins.
Samkvæmt framkvæmdastjóra evrópsku ferðaþjónustusamtakanna (ETOA) er þetta mikið högg fyrir evrópska ferðaþjónustu, sem reiðir sig venjulega mikið á ferðamenn frá Bandaríkjunum. Þar að auki hefur skuldsetning margra ferðaþjónustufyrirtækja orðin íþyngjandi eftir faraldurinn, til viðbótar við að eftirspurn eftir ferðalöngum frá Asíuríkjum hefur ekki náð sér á strik þar sem strangar sóttvarnir eru enn í gildi þar.
Líkt og Kjarninn hefur áður greint frá jókst fjöldi bandarískra ferðamanna hratt hérlendis í fyrra, en í ágúst og september var hann orðinn 90 prósent af fjölda þeirra í sama mánuði árið 2019. Eftir að kórónuveirusmitum byrjaði aftur að fjölga í fyrrahaust dró þó hratt úr fjölda þeirra, en í síðasta mánuði var fjöldi þeirra aðeins 40 prósent af samsvarandi fjölda þeirra í febrúar fyrir þremur árum síðan.