Guðlaugur Þór Þórðarson, sem er nýr ráðherra umhverfis-, loftslags- og orkumála í ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, mun ekki fara með málaflokka lista og menningar í ríkisstjórninni. Innsláttarvilla á vef Stjórnartíðinda gerði það að verkum að töluliðir í birtum forsetaúrskurði um hlutverkaskipan innan ríkisstjórnarinnar riðluðust er úrskurðurinn var birtur í gærkvöldi.
Þetta segir Róbert Marshall upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar í samtali við Kjarnann, en hann hafði samband til þess að benda á að það væri alrangt sem fram kom í frétt Kjarnans í morgun að Guðlaugur Þór væri að fara að taka við lista- og menningarmálum í ríkisstjórninni.

Hann segir enn fremur að villan sem slæddist inn á vef Stjórnartíðinda hafi ekki haft nein lögformleg áhrif, skjalið sjálft sem var undirritað á Bessastöðum á ríkisráðsfundi í gær hafi verið rétt.
Lilja fer með menningu og listir
Málefni lista og menningar munu heyra undir Lilju D. Alfreðsdóttur sem titluð er ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra í nýrri ríkisstjórn.
Guðlaugur Þór mun hins vegar taka við málaflokki menningarminja yfir í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, en þau verkefni heyrðu áður undir mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Þetta eru meðal annars verkefni sem varða varðveislu menningararfs, skil menningarverðmæta til annarra landa, verndarsvæði í byggð og Minjastofnun Íslands.
Eins og greint var frá í gær eru tengslum verða gerðar umfangsmiklar breytingar á skipulagi Stjórnarráðsins samfara myndun nýrrar ríkisstjórnar. Ráðherrum fjölgar um einn og verða þeir nú tólf og ráðuneytunum sjálfum verður fjölgað úr tíu í tólf og verkefni færð milli ráðuneyta.
Ný ráðuneyti munu taka til starfa um eða eftir áramót, samkvæmt tilkynningu á vef stjórnarráðsins.