Þegar neyðarlögin voru sett 6. október 2008 voru innstæður í bönkum gerðar að forgangskröfum í slitabú þeirra banka sem féllu í kjölfarið, og lögin náðu til. Samhliða gaf ríkisstjórn Íslands út yfirlýsingu um að allar innstæður á Íslandi væru tryggðar og á grundvelli þeirrar yfirlýsingar voru innlendar innstæður færðar með handafli inn í nýja banka sem stofnaðir voru á grunni hinna föllnu.
Í september 2016 ákvað ríkisstjórn Íslands að fella yfirlýsinguna um ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum úr gildi, en þá átti ríkið allt hlutafé í tveimur af þremur stærstu bönkum landsins og 13 prósent hlut í þeim þriðja.
Fyrir vikið var ríkið eigandi að 80 prósent af allri grunn fjármálaþjónustu landsins.
Tvöfölduðust á hrunárinu
Í nýjustu útgáfu Tíundar, fréttablaðs Skattsins, er fjallað um þróun innstæðna hérlendis síðastliðinn rúma áratug.
Þar er bent á að árið 2007, ári fyrir bankahrunið, hafi alls 75.627 fjölskyldur talið fram 461,8 milljarða króna í innstæðum á innlendum reikningum og alls 3.630 fjölskyldur töldu fram 3,1 milljarð í innstæður fyrir börn. „Ári síðar, í hruninu, voru innstæður 183.765 fjölskyldna áritaðar á skattframtal en þá voru innstæður 933,7 milljarðar og innstæður barna um 24,1 milljarður. Innstæður jukust því um 471,9 milljarða eftir að þær voru áritaðar eða 102,2 prósent og innstæður barna um 21 milljarð.“
Næstu árin minnkuðu innstæðurnar jafnt og þétt, eða alls um 40,5 prósent til ársins 2013. Það sama gilti um innstæður barna, sem drógust saman um 21,1 prósent. Í nýja góðærinu, sem hófst af alvöru 2013, fóru innstæðurnar svo að vaxa á ný.
Landsmenn 782 milljarða króna á innlendum bankareikningum í árslok árið 2019. Innstæður höfðu vaxið um 42,8 milljarða eða 5,8 prósent frá árinu áður. Í umfjölluninni í Tíund segir að þrátt fyrir síðasta góðærið, sem slær hinu fyrra sem átti sér stað fyrir hrun að mörgu leyti við, eigi „einstaklingar enn 151,6 milljörðum minna á bankareikningum en þeir áttu í árslok árið 2008, árið sem fjármálamarkaðir hrundu og gríðarlegir fjármunir töpuðust.“