Innviðaráðuneytið telur ekki þörf á að gera breytingar á ákvæði í lögum um loftferðir í samræmi við óskir Persónuverndar. Ákvæðið snýr að heimild lögreglu til þess að fletta upp í málaskrá einstaklinga sem þurfa að sæta bakgrunnsathugun áður en þeir geta talist hæfir til að fá heimild að haftasvæði flugverndar. Í umsögn Persónuverndar við nýttlagafrumvarp um loftferðir segir að vinnsla persónuupplýsinga eigi ekki að vera meiri en nauðsynlegt þyki og að í málaskrám lögreglu séu oft nærgöngular upplýsingar sem fela oft í sér óstaðfestar grunsemdir.
Allir þeir sem sækja um aðgangsheimild að haftasvæði flugvalla þurfa að undirgangast bakgrunnsskoðun. Haftasvæði flugverndar nær meðal annars yfir öll brottfararsvæði farþega á milli vopnaleitar og flugvélar, flughlað og flokkunarsvæði. Því þurfa allir sem til dæmis starfa á þessum svæðum á Keflavíkurflugvelli að sækja um aðgangsheimild og undirgangast bakgrunnsskoðun. Í kjölfarið þarf umsækjandi svo að ljúka námskeiði um flugverndarvitund.
Samkvæmt upplýsingum á vef ISAVIA er bakgrunnsskoðun skilgreind sem: „Athugun á því hver einstaklingur er og upplýsingum lögreglu um sakaferil hans, þ.m.t. hvort hann eigi afbrotaferil að baki, sem lið í mati á því hvort óhætt er að heimila honum aðgang að haftasvæði flugverndar án fylgdar og viðkvæmum trúnaðarupplýsingum um flugvernd.“
Í áðurnefndu frumvarpi um loftferðir er fjallað um framkvæmd athugunar á bakgrunni í 159. grein. Þar segir að í athugun á bakgrunni felst skoðun lögreglu á upplýsingum um einstakling sem veitt hefur heimild til framkvæmdarinnar. Upplýsingaöflunin feli meðal annars í sér skoðun á skrám lögreglu, þar með talið málaskrá, sakaskrá og skrám dómstóla, upplýsingakerfi Alþjóðalögreglunnar og annarra erlendra yfirvalda og stofnanna, upplýsingakerfum tollyfirvalda og loks upplýsingakerfi Þjóðskrár.
Ósönnuð mál megi finna í málaskrá
Líkt og áður segir gerir Persónuvernd athugasemd við það að lögreglu sé heimilt að fletta upp í málaskrá við framkvæmd bakgrunnsskoðunar. „Hvað varðar hina almennu bakgrunnsathugun í þágu flugverndar er til þess að líta að í reglugerð (ESB) 2015/1998, með síðari breytingum, er einungis vísað til sakaskrárupplýsinga (e. Criminal record), sbr. b-lið greinar 11.1.3 og b-lið greinar 11.1.4 í viðauka við reglugerðina,“ segir í umsögn Persónuverndar.
Því sé gengið lengra í frumvarpinu en efni reglugerðarinnar gefur tilefni til hvað varðar skoðun í málaskrá lögreglu. „Þá er til þess að líta að sumt af því sem skráð er í málaskrá, þ.e. í málum sem ekki hefur lokið með sektargerð eða dómi, verður að teljast ósannað,“ segir enn fremur í umsögninni.
Persónuvernd telur að á því þurfi að vera mjög rík þörf ef nýta á upplýsingar úr málaskrá lögreglu í þágu annars en löggæslu og rannsóknar sakamála, „en ljóst er að slíkar upplýsingar geta verið mjög nærgöngular og fela oft í sér óstaðfestar grunsemdir. Verði á annað borð litið svo á að hér sé slík þörf fyrir hendi telur Persónuvernd þörf á að afmarkað verði með skýrum hætti í lagatexta hvers konar upplýsinga afla megi úr málaskrá lögreglu.“ Að öðrum kosti telji Persónuvernd að fella ætti tilvísun til málaskrár lögreglu brott úr frumvarpinu.
Í niðurlagi umsagnarinnar ítrekar stofnunin að við alla vinnslu persónuupplýsinga þurfi að hafa hliðsjón af meginreglum laga sem lúta að því að þær persónuupplýsingar sem unnið er með hverju sinni séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar.
Ákvæðið óbreytt frá núgildandi lögum
Í minnisblaði innviðaráðuneytisins segir að það telji ekki þörf á að gera breytingar á ákvæðinu. Fyrir því séu nokkrar skýringar. Í fyrsta lagi bendir ráðuneytið á að ákvæðið sem um ræðir sé nú þegar í núgildandi lögum um loftferðir. Þegar núgildandi frumvarp var afgreitt bárust sambærilegar athugasemdir frá Persónuvernd.
„Í umsögn Persónuverndar þá, líkt og nú, sagði að „heimild til nýtingar upplýsinga ætti að fara eftir því hvort hún sé í raun nauðsynleg í þágu lögmæts og málefnalegs tilgangs“ og bent á að „mat lögreglu eitt og sér ætti því ekki að geta rennt stoðum undir lögmæti nýtingarinnar“,“ segir í minnisblaði innviðaráðuneytisins.
Færð eru frekari rök fyrir því hvers vegna þessi heimild ætti að vera í lögum um loftferðir í minnisblaðinu. Þar segir að reglur um bakgrunnsathuganir séu settar í því skyni að koma í veg fyrir að einstaklingar með vafasaman bakgrunn komist inn á svæði sem eru háð aðgangstakmörkunum af öryggisástæðum. Enn fremur til að takmarka ógn af hryðjuverkum og öðrum ólögmætum aðgerðum á borð við smygl á vopnum, fíkniefnum og sprengiefnum milli landa. „Sjónarmið um öryggi, líf og heilsu landsmanna vega þungt og má telja í því ljósi að almannahagsmunir krefjist þess að þeir einstaklingar sem fái aðgang að haftasvæðum gangist undir ítarlega bakgrunnsathugun.“
„Rétt er að benda á að sakavottorð eru alltaf skoðuð áður en málaskráin er skoðuð,“ segir í minnisblaðinu en það er nokkuð óljóst hvaða þýðingu það hefur, enda segir strax í kjölfarið: „Reynslan hefur því miður sýnt að sakavottorð, þó þau nái tíu ár aftur í tímann, gefa oft ekki rétta mynd af viðkomandi og duga skammt til að meta hvort einstaklingur er hæfur til að fá jákvæða umsögn. Tilgangur ákvæðisins er fyrst og fremst að bakgrunnsathugun sé fullnægjandi og trúverðug.“