Leiðin út úr heimsfaraldri, stríðið í Úkraínu, utanríkisstefna Íslands, rammaáætlun, loftslagsváin, fæðuöryggi og húsnæðisöryggi er meðal þess sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gerði að umtalsefni í ræðu sinni við hátíðarhöld á Austurvelli á þjóðhátíðardaginn.
„Innrás Rússlands í Úkraínu hefur haft og mun hafa hrikalegar afleiðingar,“ sagði forsætisráðherra og lagði ríka áherslu á stuðning íslenskra stjórnvalda við Úkraínu sem er afdráttarlaus. „Nú þegar hafa komið hingað til lands tæplega 1200 Úkraínumenn og það er mikilvægt að taka vel á móti þeim sem og öðru flóttafólki.“
Nýtt hættumat og endurskoðun á þjóðaröryggisstefnu væntanleg í ár
Forsætisráðherra sagði það vera viðvarandi verkefni stjórnvalda á hverjum tíma að endurskoða öryggis- og varnarmál sín. Sú vinna stendur nú yfir í tengslum við nýtt hættumat og endurskoðun á þjóðaröryggisstefnu Íslands á vettvangi Þjóðaröryggisráðs. „Fregna af hvoru tveggja er að vænta á síðari hluta þessa árs“ sagði Katrín.
Utanríkisstefna Íslands hefur verið skýr í ölduróti alþjóðasamfélagsins sem nú ríkir að mati forsætisráðherra. „Ísland er og verður herlaus þjóð sem byggir fullveldi sitt á virðingu fyrir alþjóðalögum og virku samstarfi við önnur ríki á vettvangi alþjóðastofnana,“ sagði Katrín í ræðu sinni.
„Sem traustur og áreiðanlegur þátttakandi í alþjóðakerfinu er Ísland öðru fremur málsvari mannréttinda, lýðræðis og réttarríkis. Og hér eftir sem hingað til notum við rödd okkar til að tala fyrir réttindum kvenna og stúlkna, fyrir umhverfis- og loftslagsmálum, og fyrir friði og afvopnun.“
Efnahagssamdráttur skapar kjörlendi fyrir lýðskrumara
Þá sagði hún brýnt að afvopnun verði áfram í forgrunni þótt mörg ríki heims séu að auka útgjöld til hermála. Katrín sagði það einnig brýnt að „veröldin ani ekki út í nýtt vígbúnaðarkapphlaup með tilheyrandi hörmungum“.
„Fámennar og friðsamar þjóðir eins og Ísland eru í engri stöðu til að hafa betur í hernaðarátökum“ sagði forsætisráðherra, sem telur ógnir stríðsins fyrir Ísland vera af öðrum toga en þeirra sem nær þeim búa. Evrópu stafar ógn af efnahagslegum áhrifum stríðsins og nefndi forsætisráðherra hækkanir á olíu og gasi sem og hættu á matarskorti í því samhengi.
„Afleiðingar þessa sjáum við meðal annars birtast í verðbólgu og verulegri hættu á efnahagssamdrætti og slíkt skapar auðvitað kjörlendi fyrir lýðskrumara sem jafnan hafa á reiðum höndum einföld svör við flóknum spurningum.“
Rammaáætlun stuðlar að jafnvægi verndar og nýtingar
Nýsamþykkt rammaáætlun kom einnig við sögu í ræðu forsætisráðherra sem sagði að áfram eigi að vinna eftir faglegu ferli í mati á virkjanakostum í gegnum rammaáætlun. Þriðji áfangi rammaáætlunar var samþykktur með 34 atkvæðum á Alþingi í vikunni þar sem meirihlutaálit umhverfis- og samgöngunefndar var samþykkt sem felur meðal annars í sér að virkjanir í Héraðsvötnum og við Þjórsárver eru komnar aftur á dagskrá.
Katrín sagði rammaáætlun stuðla „að hinu mikilvæga jafnvægi verndar og nýtingar og halda því til haga að vernd skilar okkar samfélagi ómetanlegum gæðum sem verða æ eftirsóknarverðari í heiminum á 21. öldinni – þar sem ósnortin náttúra verður æ fágætari“.
Húsnæðismál eitt stærsta kjaramál heimilanna
Þó ný kreppa hafi tekið við af heimsfaraldrinum með stríðsátökum sagði Katrín margt jákvætt vera að gerast á Íslandi. Vísaði hún í niðurstöður lífskjararannsóknar Hagstofunnar fyrir árin 2019 til 2021 sem sýna að hlutfall heimila sem eiga erfitt með að láta enda ná saman hefur aldrei mælst lægra og færri telja byrði húsnæðiskostnaðar þungan. Hlutfall heimila sem segjast búa við efnislegan skort er nálægt sögulegu lágmarki og aldrei hafa færri heimili sagst eiga í erfiðleikum með að mæta óvæntum útgjöldum.
„Þessar tölur segja sitt, þær skipta máli og sýna góðan árangur hinnar félagslegu efnahagsstefnu. En þær segja ekki alla söguna,“ sagði Katrín. Ríkisstjórnin ætlar að setja húsnæðismál í forgang enda er um eitt stærsta kjaramál heimilanna að ræða að sögn forsætisráðherra þar sem stærsta verkefnið er að tryggja aukið húsnæðisöryggi. „Gott samstarf ríkis og sveitarfélaga hefur hér mikla þýðingu. Aukið framboð á húsnæði ásamt öflugri aðstoð, ekki síst við þau sem eru á leigumarkaði, ræður miklu um lífsafkomu þeirra fjölskyldna sem búa við hvað lökust kjör í landinu.“
Full ástæða til að vera bjartsýn
Hvað sem stríði, óvissu í efnahagsmálum og ekki síst loftslagsvánni líður telur forsætisráðherra fulla ástæðu til að vera bjartsýn. „Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið, raunhæfar áætlanir og lagt fram fjármagn til að fylgja þeim eftir. Sá metnaður og áhugi sem ég finn í samfélaginu öllu er áþreifanlegur, almenningur og atvinnulíf leita stöðugt nýrra og skapandi lausna til að draga úr losun sem skila oft líka betri lífsgæðum og aukinni hagkvæmni,“ sagði Katrín um stöðuna í baráttunni gegn loftslagsvánni.
Lýðræði var forsætisráðherra hugleikið á þjóðhátíðardaginn og sagði hún það hafa átt undir högg að sækja.
„Við þurfum stöðugt að halda vöku okkar – lýðræðið getur horfið á einni svipstundu – jafnvel þótt það hafi lengi verið við lýði. Og í dag,, þegar við fögnuð þbí að lýðveldið Ísland er78 ára, þá vil ég segja: Látum lýðræðið verða okkar leiðarljós á þessum þjóðhátíðardegi og öllum þeim dögum sem á eftir honum koma. Lýðræðið á að vera sú saga, það ljóð, sem við kjósum okkur til handa alla tíð,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, áður en hún óskaði Íslendingum til hamingju með þjóðhátíðardaginn.